Enski boltinn

Ökklinn gæti aftrað Gylfa frá því að mæta Jóhanni

Sindri Sverrisson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson meiddist í leik gegn Chelsea á mánudaginn.
Gylfi Þór Sigurðsson meiddist í leik gegn Chelsea á mánudaginn. AP/John Sibley

Óvíst er hvort Gylfi Þór Sigurðsson og Jóhann Berg Guðmundsson mætast í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta á morgun, með liðum Everton og Burnley, þar sem Gylfi hefur glímt við smáægileg meiðsli í vikunni.

Jóhann sneri aftur til keppni eftir meiðsli þegar Burnley mætti Arsenal síðasta laugardag. Hann ætti því að geta mætt Everton á morgun, í síðasta leik Burnley áður en íslenska landsliðið verður valið fyrir fyrstu leikina í undankeppni HM.

Gylfi meiddist hins vegar smávægilega í ökkla í 2-0 tapinu gegn Chelsea á mánudaginn.

„Við verðum að skoða stöðuna á Gylfa. Hann lenti í erfiðleikum með ökklann í síðasta leik og við verðum að sjá til á æfingu í dag,“ sagði Carlo Ancelotti, stjóri Everton.

Það var því ekki á Ancelotti að heyra að hætta sé á að meiðsli stöðvi Gylfa í að mæta Þýskalandi, Armeníu og Liechtenstein í komandi landsleikjum, 25., 28. og 31. mars.

Ancelotti sagði að miðvörðurinn Yerry Mina væri hins vegar klár í slaginn á nýjan leik, en að Fabian Delph og James Rodriguez myndu missa af leiknum á morgun vegna meiðsla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×