Fullyrt var að rannsókn á mögulegum skattalagabrotum Samherja væri hafin í Færeyjum í frétt á vef Ríkisútvarpsins í gær. Vísaði það til ummæla Eyðuns Mørkøre, yfirmanns færeyska skattsins, í fréttaþætti færeyska sjónvarpsins á fimmtudagskvöld.
„Mín fyrsta hugsun var: hér er skítamál á ferðinni,“ hafði RÚV eftir Mørkøre varðandi ásakanir um að Samherji hefði misnotað skattareglur í Færeyjum til að komast hjá skattgreiðslum í Namibíu. Fyrirtækið hefur verið sakað um að múta ráðamönnum í Afríkulandinu til að komast yfir kvóta þar.
Í yfirlýsingu frá Samherja í morgun fullyrðir fyrirtækið að það hafi fengið staðfest frá Mørkøre að engin skattrannsókn sé hafin á hendur Samherja í Færeyjum. Hann hafi einnig staðfest að RÚV hafi haft sagt rangt frá ummælum hans. Segist fyrirtækið hafa óskað eftir því að fréttir Ríkisútvarpsins verði leiðréttar þar sem þær byggi á „rangtúlkun og útúrsnúningi“ á ummælum Mørkøre.
Engu að síður virtist Mørkøre gefa sterklega í skyn að mál Samherja gæti komið til kasta yfirvalda í þættinum. „Það er enn ekki tímabært að gefa sér neitt um niðurstöðu en það er ekki ólíklegt að málið endi hjá lögreglu,“ hefur RÚV eftir Mørkøre úr þættinum.
Mørkøre brást í þættinum við heimildarmynd sem var unnin í samstarfi við fréttaskýringarþáttin Kveik á RÚV og Wikileaks og var sýnd í Færeyjum í vikunni. Í henni er fjallað um það sem eru sagðar sérkennilegar peningatilfærslur frá tveimur namibískum útgerðarfélögum Samherja til félags Samherja í Færeyjum árin 2016 og 2017.
Vísir hefur sent Mørkøre fyrirspurn um hvort rannsókn fari fram á Samherja í Færeyjum.