Enski boltinn

Ó­sáttur með fyrri hálf­leiks frammi­stöðu sinna manna og spurði hvort dómararnir kæmu ekki í við­töl eftir leik

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
José Mourinho var ekki sammála ákvörðunum dómara dagsins. Þá tók hann fram að sínir menn hefðu verið skelfilegir í fyrri hálfleik.
José Mourinho var ekki sammála ákvörðunum dómara dagsins. Þá tók hann fram að sínir menn hefðu verið skelfilegir í fyrri hálfleik. EPA-EFE/Julian Finney

José Mourinho, þjálfari Tottenham Hotspur, var ekki alveg sammála dómara Norður-Lundúnaslagsins. Alexandre Lacazette skoraði sigurmark Arsenal gegn Tottenham í dag úr vítaspyrnu.

„Eru engin viðtöl eftir leik við dómara?“ sagði Mourinho kíminn að loknu 2-1 tapi Tottenham gegn Arsenal í ensku úrvalsdeildinni í dag.

Ásamt því að Arsenal fékk vítaspyrnu sem Mourinho fannst engan veginn vera vítaspyrna eins og kom fram í viðtali við hann eftir leik þá var Erik Lamela rekinn af velli eftir að hann fékk sitt annað gula spjald fyrir að reka hendina í andlit Kieran Tierney, vinstri bakvörð Arsenal.

„Mér fannst við spila rosalega illa í fyrri hálfleik. Það gaf ekki rétta mynd af fyrri hálfleiknum að staðan hafi verið 1-1 þegar flautað var til hálfleiks. Við vorum lélegir, vörðumst illa, engin áræðni og enginn kraftur. Sóknarlega voru mikilvægir leikmenn í feluleik, fyrri hálfleikur var mjög slæmur.“

„Í síðari hálfleik gátum við aðeins bætt okkur, sem við gerðum. Svo er það spurning – ómöguleg spurning þar sem þeir tala ekki – sem aðeins Michael [Oliver, dómari leiksins] og mögulega Paul Tierney [mynbandsdómari leiksins] geta svarað. Samkvæmt Kevin Friend [fjórði dómari leiksins] þá sagði dómarinn að hann hefði séð atvikið vel,“ sagði Mourinho um dómgæsluna í dag.

„Ef við förum aftur á byrjunina þá spiluðum við mjög illa í fyrri hálfleik. Í síðari hálfleik var leikurinn betri og við náðum stjórn á leiknum. Við gerðum breytingar til að reyna vinna leikinn, svo er vítaspyrnan og eftir vítaspyrnuna fær [Erik] Lamela sitt annað gula spjald. Þrátt fyrir það þá reyndi liðið að ná í úrslit.“

Að lokum var Mourinho spurður út í vítaspyrnuna sem Arsenal fékk. Hann vildi lítið tjá sig en gaf þó klárlega í skyn að honum hefði ekki fundist vera um vítaspyrnu að ræða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×