Körfubolti

Hetja KR-inga gegn Hetti: Skot sem ég hef æft 2000 sinnum

Gunnar Gunnarsson skrifar
Tyler Sabin skoraði sigurkörfu KR í kvöld. 
Tyler Sabin skoraði sigurkörfu KR í kvöld.  Vísir/Vilhelm

Tyler Sabin var hetja KR-inga í kvöld þegar þeir unnu Hött 97-98 í úrvalsdeild karla í körfuknattleik á Egilsstöðum í kvöld. KR-ingar voru undir nær allan leikinn en komust yfir öðru sinni í leiknum þegar Tyler setti niður þriggja stiga skot þegar 4,5 sekúndur voru eftir.

„Brendan náði frákastinu eftir vítið og kom boltanum fram. Við höfum alltaf trú á okkur, sama hver staðan er og ég fór upp í skot sem ég hef æft 2000 sinnum. Þetta var samt stórt augnablik,“ sagði Tyler um síðustu sóknina.

KR liðið átti annars frekar dapurt kvöld. „Ef þú mætir ekki tilbúinn til leiks í þessari deild geturðu tapað. Við vorum eitthvað dasaðir eftir ferðina hingað en sem betur fer unnum við.“

Oft var Tyler til staðar í sókninni til að taka á skarið og halda KR-ingum inni í leiknum. 

„Þetta snýst um sjálfstraustið og síendurteknar æfingar. Ég mæti til þjálfarans á hverjum morgni og við förum í gegnum æfingar. Mér er treyst af þjálfurunum og samherjum mínum og ég treysti þeim. Þetta skiptir máli þegar kemur að stóru stundunum,“ sagði Tyler Sabin að lokum.


Domino's-deildirnar í körfubolta eru á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Domino's-deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×