Erlent

Bann við hríð­skota­rifflum fellt úr gildi tíu dögum fyrir fjölda­morðið

Kjartan Kjartansson skrifar
Árásarmaðurinn lét til skarar skríða í versluninni King Soopers í Boulder í Colorado síðdegis í gær.
Árásarmaðurinn lét til skarar skríða í versluninni King Soopers í Boulder í Colorado síðdegis í gær. AP/David Zalubowski

Umdæmisdómari í Colorado í Bandaríkjunum felldi úr gildi bann borgaryfirvalda í Boulder við hríðskotarifflum aðeins tíu dögum fyrir fjöldamorðið sem var framið með slíku skotvopni í gær. Vopnaður árásarmaður skaut tíu manns til bana í stórmarkaði.

Lögreglan í Boulder hefur enn ekki nafngreint karlmanninn sem hóf skothríð í King Soopers-stórmarkaðinum í borginni í gær. Ekki hefur komið fram hvað manninum gekk til en hann er sagður hafa særst aðeins lítillega þegar lögreglumenn skutu hann.

Árásarmaðurinn skaut lögreglumann sem var fyrstur á vettvang til bana. Eric Talley, 51 árs, var sjö barna faðir, að sögn Washington Post.

Bann við hríðskotarifflum líkt og þeim sem var notaður í árásinni í gær hafði verið í gildi í Boulder frá árinu 2018 en það var samþykkt til að koma í veg fyrir fjöldamorð með skotvopnum eftir að sautján manns voru myrtir í framhaldsskóla í Parkland á Flórída það ár.

Samtök skotvopnaeigenda og eigandi byssuverslunar kærðu bannið til dómstóla. Umdæmisdómari í Boulder-sýslu komst að þeirri niðurstöðu að borgaryfirvöld gætu ekki bannað skotvopn sem væru annars löglega samkvæmt ríkis- og alríkislögum. Felldi hann bannið úr gildi 12. mars, tíu dögum fyrir skotárásina mannskæðu.

NRA, stærstu samtök skotvopnaeigenda í Bandaríkjunum, fögnuðu úrskurðinum á Twitter-síðu sinni en þau studdu málsóknina.

„Við reyndum að verja borgina okkar. Það er svo sorglegt að sjá lögin felld úr gildi og að nokkrum dögum síðar upplifi borgin okkar nákvæmlega það sem við reyndum að forðast,“ segir Dawn Reinfeld, einn stofnenda samtaka gegn byssuofbeldi í Colorado, við Washington Post.

Skotvopnaeigendasamtökin sem kærðu hríðskotarifflabannið hafna því aftur á móti að tengja skotárásina og ógildingu bannsins. Þau segja að „tilfinningaæsingur“ skyggi á minningu fórnarlamba árásarinnar. Nú sé ekki tíminn til þess að ræða hvernig sé hægt að koma í veg fyrir árásir af þessu tagi en það hafa verið rök samtaka skotvopnaeigenda eftir mörg fjöldamorð með skotvopnum vestanhafs.

AP-fréttastofan segir að fjöldamorðið í gær sé það sjöunda í Bandaríkjunum það sem af er þessu ári. Vopnaður maður skaut átta manns til bana í morðæði á nokkrum nuddstofum í Atlanta í Georgíu í síðustu viku. Meirihluti þeirra myrtu voru asískar konur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×