Enski boltinn

Greenwood ekki með U-21 árs lands­liði Eng­lands í riðla­keppni EM

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Greenwood hefur ekki veirð upp á sitt besta á leiktíðinni.
Greenwood hefur ekki veirð upp á sitt besta á leiktíðinni. EPA-EFE/Mike Hewitt

Mason Greenwood, framherji enska landsliðsins og Manchester United, hefur dregið sig út úr enska U21 árs landsliðshópnum sem tekur þátt í riðlakeppni EM sem fram fer í Ungverjalandi og Slóveníu. Frá þessu greindu fjölmiðlar á Englandi í dag.

Þetta eru ekki góðar fréttir fyrir Manchester United en mikil meiðsli herja nú á framherja liðsins. 

Marcus Rashford fór meiddur með enska A-landsliðinu í komandi verkefni í undankeppni HM 2022. Þá hafa bæði Edinson Cavani og Anthony Martial verið að glíma við meiðsli.

Greenwood hefur átt erfitt uppdráttar á leiktíðinni þó gengi Manchester United hafi verið öllu skárra en á síðustu leiktíð. Í 23 leikjum í ensku úrvalsdeildinni hefur Greenwood aðeins komið með beinum hætti að tveimur mörkum, skorað eitt og lagt upp annað. 

Honum tókst að skora eitt og leggja upp tvö í fimm leikjum í Meistaradeild Evrópu. Þá hefur Greenwood skorað þrjú og lagt upp tvö í alls sjö leikjum í FA og deildarbikarnum.

Ekki kemur fram hvað nákvæmlega er að hrjá Greenwood en Todd Cantwell, leikmaður Norwich City hefur verið kallaður inn í hóp enska U21 liðsins til að fylla skarð Greenwood.

England er í riðli með Portúgal, Króatíu og Sviss.

Enski hópurinn

Markverðir: Aaron Ramsdale, Josh Griffiths og Josef Bursik.

Varnarmenn: Max Aarons, Ben Godfrey, Marc Guehi, Lloyd Kelly, Ryan Sessegnon, Steven Sessegnon, Japhet Tanganga og Ben Wilmot.

Miðjumenn: Dwight McNeil, Oliver Skipp, Tom Davies, Conor Gallagher, Curtis Jones og Emile Smith Rowe.

Sóknarmenn: Ebere Eze, Rhian Brewster, Callum Hudson-Odoi, Todd Cantwell, Noni Madueke og Eddie Nketiah.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×