Aðstoðaryfirlögregluþjónn segir erfitt að segja til um hvað hafi valdið því að svo mörg kórónuveirusmit hafi komið upp síðustu daga.
„Þetta var bara slys. Þetta getur gerst, þegar það er heimsfaraldur í gangi. Við höfum alltaf talað um að þetta muni ganga í hæðum og lægðum,“ segir Rögnvaldur.
Enn hefur ekki verið hægt að rekja hvar hópsmitið sem kom upp um síðustu helgi hófst en um er að ræða breska afbrigði kórónuveirunnar en þó ekki það sama og kom upp fyrr í mánuðinum.
„Það er áhyggjuefni að við séum komin með veiru af stað hér innanlands sem við höfum ekki fundið við landamæraskimun. Það er ekki augljóst hver ástæðan er og við erum að fara yfir það með smitrakningarteyminu okkar,“ segir hann.
Fjölmenni hefur verið á Reykjanesi eftir að fór að gjósa þar. Rögnvaldur segir að verið sé að skoða hvernig tekið verður á fjöldatakmörkunum þar.
„Eldgosið einfaldar ekki málið og við erum að reyna að finna lausn á því hvernig hægt sé að koma öllu þessu fólki þarna fyrir. Þá erum við að vinna með hópferðafyrirtækjum sem ætla að keyra fólk á staðinn en þar þarf að taka tillit til tíu manna samkomutakmarkana,“ segir Rögnvaldur.
Rögnvaldur segir að nú verði fólk að gera eins og um páskanna í fyrra þegar fólk var hvatt til að ferðast innanhúss.
„Við höfum verið áður í þessari stöðu, við kunnum þetta. Nú þurfum við bara að keyra áfram og klára þetta hratt og örugglega,“ segir Rögnvaldur.