Skoðun

Að rjúfa stöðnun á hús­næðis­markaði

Líneik Anna Sævarsdóttir skrifar

Stöðnun á húsnæðismarkaði á landsbyggðinni er og hefur verið viðvarandi vandamál í mörgum byggðum landsins undanfarna áratugi og hefur hindrað atvinnuuppbyggingu og eðlilega samfélagsþróun.

Að rjúfa þá stöðnun er brýnt og stórt byggðaverkefni sem kallar á fjölþættar aðgerðir stjórnvalda.

Við upphaf kjörtímabilsins settum við húsnæðismál á landsbyggðinni á oddinn. Í stjórnarsáttmálanum kemur fram að stuðla skuli að eflingu og auknu jafnvægi á húsnæðismarkaði, óháð búsetu.

Í skýrslu hagdeildar Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS) um þróun húsnæðismarkaðar utan suðvesturhornsins, sem kom út á dögunum, er það augljósa staðfest, þ.e. að stöðnun hefur ríkt í húsnæðismálum margra byggðarlaga. Í sömu skýrslu er einnig farið yfir ástæður þess að uppbygging á landsbyggðinni hefur verið sáralítil í samanburði við höfuðborgarsvæðið.

„Helstu ástæður má rekja til þess að víða á landsbyggðinni stendur söluverð eigna ekki undir byggingarkostnaði, seljanleiki eigna er minni og fólksfækkun hefur verið í sumum sveitarfélögum sem veldur minni eftirspurn. Á sama tíma hefur fjölgun verið í öðrum sveitarfélögum sem hefur skapað húsnæðisskort. Þá hafa lánastofnanir haft minni áhuga á að lána til íbúðakaupa og íbúðauppbyggingar á landsbyggðinni,“ segir í skýrslunni

Þær aðgerðir sem við höfum farið í á þessu kjörtímabili í húsnæðismálum undir forystu Framsóknar snúa einmitt að þessum þáttum og ráðast að rót vandans. Það eru sérstök landsbyggðarlán, stofnframlög og byggðaframlög, hlutdeildarlán, samstarf við opinbera leigufélagið Bríeti og tilraunaverkefni á vegum HMS í samstarfi við sveitafélög. Á dögunum kynnti svo Ásmundur Einar félags- og barnamálaráðherra nýtt verkefni, Tryggð Byggð, sem er samstarfsvettvangur allra þeirra sem koma að húsnæðismálum á landsbyggðinni.

Vefur verkefnisins sýnir svart á hvítu að árangurinn af þessum aðgerðum hefur ekki látið á sér standa en framkvæmdir eru hafnar við yfir 400 íbúðir í 34 sveitafélögum og heildarfjárfestingin nálgast 10 milljarða.

Upplýsingarnar á vefnum geta nýst öllum sem huga að byggingu húsnæðis á landsbyggðinni við leit að leiðum og fyrirmyndum. Það er mikilvægt að við höldum áfram á þessari braut inn í framtíðina og tryggjum aðgengi að fjölbreyttum húsnæðiskostum við hæfi, óháð búsetu.

Höfundur er þingmaður Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×