Viðskipti innlent

Skráningarblöðin ekki til þess að búa til nýjan kúnnahóp

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Helga Þórisdóttir segir að brugðist verði við ef fyrirtæki nýta sér upplýsingar úr skráningarblöðunum í eigin þágu.
Helga Þórisdóttir segir að brugðist verði við ef fyrirtæki nýta sér upplýsingar úr skráningarblöðunum í eigin þágu. Vísir/Egill

Fyrirtækjum er ekki heimilt að óska eftir öðrum upplýsingum um viðskiptavini sína en lög og reglur gera ráð fyrir, að sögn Helgu Þórisdóttur, forstjóra Persónuverndar. Þeim sem sækja veitinga- eða matsölustaði er nú gert að fylla út sérstök skráningarblöð með helstu persónuupplýsingum samkvæmt nýrri reglugerð heilbrigðisráðherra en það er til þess að flýta fyrir smitrakningu ef smit greinast.

„Það er algjörlega óheimilt. Þessar upplýsingar eru einungis í sóttvarnarlegum tilgangi til þess að rekja smit ef þau koma upp - ekki til þess að búa til nýjan kúnnahóp eða þvíumlíkt, nema skýrt samþykki fengist fyrir slíku frá hverjum og einum viðskiptavini,” segir Helga.

Reglugerðin kveður á um að gestir í sætum á veitingastöðum séu skráðir í númeruð sæti og að þeir gefi upp nafn, kennitölu og símanúmer en fréttastofa hefur upplýsingar um að einhverjir staðir hafi einnig farið fram á heimilisfang og jafnvel netfang.

Helga segir að aldrei eigi að óska eftir fleiri upplýsingum en á þurfi að halda. Bregðast þurfi við ef fyrirtæki nýti sér upplýsingarnar í markaðslegum tilgangi.

Vankunnátta frekar en ásetningur

„En ég gef mér það að þetta sé frekar vankunnátta heldur en ásetningur til að brjóta persónuverndarlög,” segir hún.

Hins vegar séu þetta mikilvægar upplýsingar fyrir stjórnvöld. Heimildir þeirra til þess að óska eftir persónuupplýsingum séu rýmri í heimsfaraldri en almennt gengur og gerist.

„Ég geri ráð fyrir að það sem kemur fram í reglugerðinni sé bara það sem smitrakningarteymið þarf á að halda í sinni vinnu. Það á aldrei að óska eftir fleiri upplýsingum en á þarf,” segir Helga.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×