Enski boltinn

Fimm mörk á hálf­tíma tryggðu West Ham fyrsta sigur ársins

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Dagný spilaði alla leikinn í mikilvægum sigri West Ham í dag.
Dagný spilaði alla leikinn í mikilvægum sigri West Ham í dag. Alex Davidson/Getty Images

Dagný Brynjarsdóttir lék allan leikinn er West Ham United vann ótrúlegan 5-0 sigur á Reading í ensku úrvalsdeildinni í dag. Er þetta fyrsti sigur West Ham í deildinni á þessu ári.

West Ham hefur ekki gengið sem skyldi síðan Dagný gekk í raðir liðsins. Það breyttist heldur betur í dag með ótrúlegum 5-0 útisigri þar sem öll mörkin komu á hálftíma kafla í fyrri hálfleik.

Kenza Dali kom gestunum yfir strax á 7. mínútu leiksins. Þremur mínútum síðar hafði Katerina Svitkova tvöfaldað forystu West Ham. Aðeins mínútu síðar kom Martha Thomas gestunum þremur mörkum yfir.

Áður en fyrri hálfleik var lokið hafði Martha Thomas bætt við tveimur mörkum til viðbótar og fullkomnað þrennu sína. Staðan 5-0 í hálfleik og fór það svo að það urðu lokatölur leiksins.

Dagný lék allan leikinn á miðju West Ham sem hélt fengnum hlut í síðari hálfleik. Liðið lyftir sér þar með af botni deildarinnar og er nú með 12 stig í 10. sæti. Það þarf þó að sækja fleiri sigra í næstu leikjum en Bristol City er með 11 stig í 11. sæti og Aston Villa situr í fallsætinu með tíu stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×