Enski boltinn

Man United tapaði ó­vænt meðan hin topp­liðin unnu

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Brighton fagnar sigurmarki sínu í dag.
Brighton fagnar sigurmarki sínu í dag. John Walton/Getty Images

María Þórisdóttir lék allan leikinn er Manchester United tapaði óvænt gegn Brighton & Hove Albion í ensku úrvalsdeildinni. Chelsea, Arsenal og Manchester City unnu öll sína leiki.

María lék í miðverði og nældi sér í gult spjald er Man United tapaði óvænt 1-0 á útivelli þökk sé marki Inessa Kaagman úr vítaspyrnu í fyrri hálfleik. 

United hefur nú tapað þremur af síðustu fimm leikjum og er dottið niður í 4. sæti þar sem Arsenal vann Bristol City örugglega 4-0 í dag.

Vivianne Miedema skoraði tvívegis fyrir Arsenal, Danielle van de Donk og Bethany Mead bættu svo við einu marki hvor. Manchester City er svo enn í 2. sæti eftir öruggan 3-0 sigur á Tottenham Hotspur á útivelli.

Topplið Chelsea jarðaði Birmingham City 6-0 þar sem Samantha Kerr skoraði þrennu, Francesca Kirby tvö og Guro Reiten eitt mark.

Staðan í deildinni er þannig að Chelsea er sem fyrr á toppnum með 50 stig að loknum 19 umferðum. Þar á eftir kemur Manchester City með 48 stig á meðan Arsenal og Manchester United eru með 38 stig þar fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×