Innlent

Gefur ekki kost á sér fyrir næstu kosningar

Sylvía Hall skrifar
Páll Magnússon hefur setið á þingi fyrir Sjálfstæðisflokkinn í fimm ár.
Páll Magnússon hefur setið á þingi fyrir Sjálfstæðisflokkinn í fimm ár. Vísir/Vilhelm

Páll Magnússon, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hyggst ekki gefa kost á sér í prófkjöri Sjálfstæðismanna fyrir alþingiskosningar í haust. Frá þessu greinir Páll í stöðuuppfærslu nú síðdegis þar sem hann segir áhugann hafa dofnað eftir fimm ár á þingi.

„Það er ekki vegna neinna ytri aðstæðna í pólitíkinni sem ég tek þessa ákvörðun heldur er hún á endanum persónuleg - kemur innan frá. Oft þegar ég hef staðið frammi fyrir mikilvægum ákvörðunum og áskorunum lýkur vangaveltunum bara með einni einfaldri spurningu: Langar mig nógu mikið til að gera þetta? Svarið að þessu sinni er nei,“ skrifar Páll.

Hann segist hafa komist að þessari niðurstöðu um síðustu áramót, en ákveðið að láta þrjá mánuði líða áður en hann tæki endanlega ákvörðun ef eitthvað kynni að breytast. Það hafi ekki gerst.

„Og af hverju sagði ég þá fyrir nokkrum vikum að ég ætlaði að gefa kost á mér áfram? Jú, það er einfalda reglan um að þangað til ný ákvörðun er tekin þá gildir sú gamla!“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×