Erlent

Banna um­fjöllun um konung­legar deilur í Jór­daníu

Atli Ísleifsson skrifar
Hinn 59 ára Abdúlla tók við embætti Jórdaníukonungs af föður sínum árið 1999.
Hinn 59 ára Abdúlla tók við embætti Jórdaníukonungs af föður sínum árið 1999. EPA

Ríkissaksóknaraembættið í Jórdaníu hefur lagt bann við alla umfjöllun fjölmiðla þar í landi um deilur milli Abdúlla II konungs og Hamza, hálfbróður hans og fyrrverandi krónprins.

Ríkisfjölmiðlar í Jórdaníu greina frá þessu, en bannið nær einnig til umræðna á samfélagsmiðlum.

Mikil óvissa hefur verið í Jórdaníu síðustu daga vegna málsins, en stjórnmálalegur stöðuleiki hefur verið mikill í landinu síðustu ár. Um helgina var greint frá því að hópur manna tengdur Hamza hafi verið handtekinn vegna gruns um að hafa átt í samskiptum við erlenda aðila með það að markmiði að grafa undan jórdönskum stjórnvöldum og þar með Abdúlla konungi.

Hamza var í kjölfarið gert að sæta stofufangelsi, en í gær var svo greint frá því að hann hafi ritað undir plagg þar sem hann sór hollustu við konunginn. Hamza var sömuleiðis boðið á fund konungsins í konungshöllinni í höfuðborginni Amman.

Hamza var áður krónprins Jórdaníu en missti þann titil árið 2004 þegar eldri hálfbróður hans, Abdúlla II, gerði son sinn að nýjum krónprins.

Þeir Abdúlla og Hamza eru báðir synir Hússein, fyrrverandi konungs landsins. Hinn 59 ára Abdúlla tók við embætti Jórdaníukonungs af föður sínum árið 1999.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×