Enski boltinn

Guar­diola og De Bru­yne fram­lengja

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Pep Guardiola og Kevin De Bruyne verða áfram hjá Man City næstu árin.
Pep Guardiola og Kevin De Bruyne verða áfram hjá Man City næstu árin. EPA-EFE/PETER POWELL

Manchester City tilkynnti nú rétt í þessu að Pep Guardiola og Kevin De Bruyne hafi skrifað undir framlengingar á samningum sínum. Pep verður hjá félaginu til 2023 en De Bruyne til 2025.

Það er nóg um að vera hjá Manchester City þessa dagana. Félagið á enn möguleika á að vinna fernuna, vann dramatískan 2-1 sigur á Borussia Dortmund í 8-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í gær og gaf það nýverið út að félagið hefði tapað 126 milljónum punda á síðustu leiktíð. Það virðist ekki hafa mikil áhrif á fjárhag liðsins en í morgun tilkynnti félagið að tveir af mikilvægustu mönnum þess hefðu skrifað undir framlengingar á samningum sínum.

Pep Guardiola, þjálfari félagsins, er nú samningsbundinn til sumarsins 2023 á meðan Kevin De Bruyne skrifaði undir nýjan samning sem gildir til ársins 2025.

Talið var að hinn fimmtugi Pep hefði fengið nóg á síðustu leiktíð eftir að hafa verið hjá Manchester City síðan 2016. Hann virkaði þreyttur og liðið var engan veginn að ná sömu hæðum og árin tvö á undan þegar það vann ensku úrvalsdeildina. City-liðið hefur hins vegar verið stórkostlegt á þessari leiktíð og Guardiola virðist ekki hafa neinn áhuga á að stíga til hliðar.

Eftir fjögur frábær ár með Barcelona tók hann sér ársfrí áður en hann hélt til Þýskalands og tók við Bayern. Þar var hann í þrjú ár áður en hann tók við Manchester City. Klári hann samning sinn hjá City þá hefur hann eytt alls sjö árum í Manchester-borg eða jafn miklum tíma og hann gerði með Barcelona og Bayern til samans.

Til að gera daginn enn betri fyrir stuðningsfólk City var einnig tilkynnt að hinn 29 ára gamli Kevin De Bruyne - einn besti leikmaður liðsins, ensku úrvalsdeildarinnar og heims – hefði skrifað undir nýjan samning sem gildir til ársins 2025. Þá verður De Bruyne orðinn 34 ára gamall og verið í herbúðum City í áratug.

Belgíski miðjumaðurinn hefur verið hreint út sagt magnaður undanfarin ár þó hann hafi glímt við erfið meiðsli um tíma. Alls hefur De Bruyne spilað 255 leiki fyrir City og skorað 65 mörk ásamt því að leggja upp önnur 105.

Tímabilið 2019/2020 var hans besta á ferlinum í ensku úrvalsdeildinni en í 35 leikjum skoraði hann 13 mörk og lagði upp 20 til viðbótar.


Tengdar fréttir

Foden hetja Manchester City í tor­sóttum sigri

Manchester City lagði Borussia Dortmund 2-1 í fyrri leik liðanna í 8-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu. Hinn ungi Phil Foden reyndist hetja City en sigurmarkið kom í uppbótartíma leiksins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×