Íslenski boltinn

Fyrstu fótboltaleikirnir ekki um helgina en fljótlega

Sindri Sverrisson skrifar
Valsmenn hefja titilvörn sína í Pepsi Max-deild karla væntanlega áður en þessi mánuður er á enda.
Valsmenn hefja titilvörn sína í Pepsi Max-deild karla væntanlega áður en þessi mánuður er á enda. vísir/hag

Birkir Sveinsson mótastjóri KSÍ vinnur nú að tillögum fyrir stjórn sambandsins um það hvenær Íslandsmótið í fótbolta muni hefjast nú þegar ljóst er að íþróttabanni verður aflétt á fimmtudaginn.

Heilbrigðisráðherra tilkynnti í dag að æfingar og keppni í íþróttum yrði heimiluð frá og með næsta fimmtudegi. Áhorfendur verða þó ekki leyfðir á íþróttaleikjum enn um sinn.

Birkir segir að áætlanir fyrir allar aðrar deildir en Pepsi Max deild karla muni geta haldið sér fyrst að æfingar megi hefjist að nýju á fimmtudag. Keppni í Pepsi Max deild kvenna hefst til að mynda 4. maí svo að þar eru enn þrjár vikur til stefnu.

Í Pepsi Max deild karla átti fyrsti leikur að vera á milli Vals og ÍA 22. apríl og heil umferð að fara fram þá helgi. Birkir segir að sér virðist sem að félögin í deildinni vilji að minnsta kosti tvær vikur til æfinga, frá og með afléttingu æfingabanns. Miðað við það er líklegt að Pepsi Max-deild karla hefjist 30. apríl eða þar um bil.

Keppni í Mjólkurbikar kvenna ætti að geta farið af stað á tilsettum tíma, eða 26. apríl. 

Mjólkurbikar karla ætti að vera byrjaður því þar voru fyrstu leikir settir á 8. apríl. Birkir segir að félögin vilji að spilað verði í bikarnum mjög fljótlega en þó ekki strax um næstu helgi. Leikirnir í 1. umferð Mjólkurbikars karla verða því væntanlega fyrstu leikir sumarsins.

Birkir mun leggja fram tillögur um dagsetningar fyrir stjórn KSÍ sem fundar á fimmtudaginn. Hún ákveður svo framhaldið. Það er einnig í höndum stjórnar að ákveða hvort að keppni í deildabikarnum (Lengjubikarnum), sem ekki er lokið, verði blásin af og eins hvort að efstu lið síðasta árs mætist í Meistarakeppni KSÍ.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×