Þetta segir leiðtogi IA, Múte B. Egede, í samtali við Sermitsiaq.AG. Egede er talinn líklegastur til að verða næsti forsætisráðherra landsins.
Egede segir að IA stefni nú að því að mynda stjórn með flokkunum Naleraq og Atassut, en áður höfðu Demókratar tilkynnt að þeir myndu ekki eiga aðild að nýrri stjórn. Alls þarf sextán þingmenn til að ná meirihluta á grænlenska þinginu.
Egede segir mikilvægt fyrir Grænlendinga að samkomulag náist um trausta stjórn til að stýra landinu næstu fjögur árin. Egede segir að mikill óstöðugleiki ríki innan Siumut og sömuleiðis hafi valdabarátta farið þar fram fyrir opnum tjöldum. Vísar hann þar í baráttu Eriks Jensen og Kim Kielsen, fráfarandi forsætisráðherra, en Jensen bolaði Kielsen úr stóli formanns Siumut í nóvember síðastliðinn.
Niðurstöður grænlensku þingkosninganna 6. apríl 2021
- Inuit Ataqatigiit – 36,6 prósent atkvæða, alls 9.912 atkvæði. Það eru 2.434 fleiri atkvæði en í kosningunum 2018.
- Siumut – 29,4 prósent atkvæða, alls 7.971.
- Naleraq – 12 prósent atkvæða, alls 3.249.
- Demókratar – 9,1 prósent atkvæða, alls 2.452.
- Atassut – 6,9 prósent atkvæða, alls 1.879.
- Nunatta Qitornai – 2,4 prósent atkvæða, alls 639.
- Samarbejdspartiet – 1,4 prósent atkvæða, alls 375.
Alls greiddu 27.079 manns atkvæði. Kosningaþátttakan var um 66 prósent.
Egede leggur áherslu að viðræður IA og Siumut hafi þó farið fram á virðulegan máta, en innanflokksátökin hafi að lokum fengið formanninn Jensen til að ganga frá samningsborðinu.
Ekki þarf að koma á óvart að IA og Siumut nái ekki saman um myndun stjórnar þar sem flokkarnir hafi ólíkar skoðanir þegar kemur að helsta kosningamálinu, það er áætlanir um námuvinnslu í Narsaq. Siumut var fylgjandi námuvinnslunni, en IA lagðist gegn henni.