Erlent

Merkel vill herða aðgerðir gegn Covid-19

Samúel Karl Ólason skrifar
Angela Merkel á þingi í morgun.
Angela Merkel á þingi í morgun. EPA/CLEMENS BILAN

Angela Merkel, kanslari Þýskalands, hefur kallað eftir því að þingmenn samþykki að veita henni heimildir til að beita ströngum sóttvarnaraðgerðum á svæðum landsins þar sem dreifing nýju kórónuveirunnar er mikil. Hún segir það nauðsynlegt og að meirihluti Þjóðverja styðji hertar aðgerðir.

Í þingræðu í morgun sagði Merkel þriðju bylgjuna ganga yfir Þýskaland af mikilli hörku. Heilbrigðisstarfsmenn væru ítrekað að hringja viðvörunarbjöllum og spurði hún hvort þingmenn ætluðu að svara kalli þeirra.

Samkvæmt frétt Reuters trufluðu þingmenn fjar-hægri flokksins AfD ræðu kanslarans en þeir eru verulega andvígir samkomubanni og ferðatakmörkunum.

25 þúsund smituðust í gær

Merkel vill að þingmenn veiti ríkisstjórn hennar heimild til að taka fram fyrir hendurnar á leiðtogum sambandsríkja Þýskalands og í raun þvinga þá til að grípa til sóttvarnaraðgerða. Þannig vill hún draga úr álagi á heilbrigðisstarfsmenn í landinu.

Rúmlega 25 þúsund Þjóðverjar greindust með Covid-19 í gær en í heildina hafa rúmlega þrjár milljónir smitast, svo vitað sé. Þá hafa tæplega 80 þúsund manns dáið, samkvæmt tölum frá Johns Hopkins háskólanum, sem byggja á opinberum tölum.

Ætlanir kanslarans hafa mætt nokkurri mótspyrnu á þingi og þar á meðal innan flokks Merkel. Alice Weidel, leiðtogi AfD á þingi, sagði í morgun að tillögur kanslarans væru fordæmalaus árás á réttindi Þjóðverja.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×