Enski boltinn

Óttast að De Bru­yne gæti misst af undan­úr­slita­leikjum Meistara­deildar Evrópu

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Kevin De Bruyne meiddist gegn Chelsea um helgina.
Kevin De Bruyne meiddist gegn Chelsea um helgina. Getty/Victoria Haydn

Það kemur í ljós síðar í dag hversu alvarleg meiðsli Kevin De Bruyne eru en menn eru svartsýnir hjá Manchester City. Talið er að belgíski miðjumaðurinn gæti misst af báðum undanúrslitaleikjum Meistaradeildar Evrópu.

De Bruyne fór meiddur af velli er Man City tapaði 1-0 fyrir Chelsea í undanúrslitum FA-bikarsins á laugardaginn. Hann festi hægri ökkla sinn í grasinu á Wembley og stökkbólgnaði ökklinn upp í kjölfarið.

Ljóst er að Belginn verður ekki með City gegn Aston Villa á miðvikudaginn og þá missir hann af úrslitum enska deildarbikarsins sem fara fram næstu helgi er City mætir Tottenham Hotspur.

Ef meiðslin eru jafn slæm og er talið þá er ljóst að De Bruyne verður hvergi sjáanlegur er Manchester City mætir París Saint-Germain í undanúrslitum Meistaradeildarinnar. 

City heldur í vonina um að miðjumaðurinn öflugi verði aðeins frá í sjö til tíu daga en ef liðbönd á ökkla eru sködduð er talið að hann gæti verið frá í allt að sex vikur.

De Bruyne var frá vegna meiðsla á læri í alls fjórar vikur frá miðjum janúar til miðs febrúar á þessu ári og þó City hafi gengið vel á þeim tíma er ljóst að Pep Guardiola myndi alltaf vilja að Belginn færi leikfær fyrir stórleikina sem framundan eru.


Meistaradeild Evrópu er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Meistaradeildin er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.


Tengdar fréttir

Við vildum vera hug­rakkir

Thomas Tuchel hrósað liði sínu í hástert að loknum 1-0 sigri á Manchester City í undanúrslitum FA-bikarsins í kvöld.

Segir meiðsli De Bru­yne ekki líta vel út

Kevin De Bruyne fór meiddur af velli í 1-0 tapi Manchester City gegn Chelsea í gærkvöld er liðin mættust í undanúrslitum FA-bikarsins. Pep Guardiola segir meiðslin ekki líta vel út.

Chelsea vinnur bikarinn ef marka má söguna

Ef marka má þær leiktíðir sem Manchester City hefur verið slegið út úr undanúrslitum enska FA-bikarsins í knattspyrnu til þessa undir Pep Guardiola er ljóst að Chelsea verður bikarmeistari þann 15. maí næstkomandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×