Erlent

Stendur ekki við gefin lofts­lagslof­orð

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Jair Bolsonaro, forseti Brasilíu.
Jair Bolsonaro, forseti Brasilíu. Getty/Andressa Anholete

Jair Bolsonaro, forseti Brasilíu, samþykkti í dag niðurskurð í fjárveitingum til umhverfismála þrátt fyrir að hafa lofað auknum fjármunum í málefnið á loftslagsráðstefnu í gær.

Loftslagsráðstefna fór fram á vegum Bandaríkjastjórnar í gær þar sem Bolsonaro hét því að tvöfalda fjárveitingar til loftslagsmála í von um að stemma stigu við ólöglegri skógareyðingu. Sagðist hann stefna á að allur slíkur skógruðningur yrði hættur fyrir árið 2030.

Bolsonaro gekk hins vegar hratt á bak orða sinna og skrifaði í gær undir fjárlög þar sem ekki er gert ráð fyrir tvöföldun þessarar fjárveitingar. Þá samþykkti hann ekki aukalegar fjárveitingar sem lagðar voru til af brasilíska þinginu.

Frá því að Bolsonaro tók við forsetastóli hefur ríkisstjórn hans dregið úr fjárveitingum til málefnisins og talað gegn umhverfisvernd. Þá hefur hann talað fyrir uppbyggingu á vernduðum svæðum.

Gagnrýnendur segja loforð Bolsonaro mega rekja til samnings sem Brasilía og Bandaríkin eru að semja um þessa dagana. Samningurinn snýst um fjárveitingar Bandaríkjanna til Brasilíu gegn því að Brasilía verndi Amazon skóginn, stærsta regnskóg jarðarinnar, og önnur svæði.

Samkvæmt fjárlögum Brasilíu 2021 fær umhverfisráðuneytið 380 milljónir Bandaríkjadala, eða um 47,8 milljarða íslenskra króna, í fjárveitingar en árið 2020 var tæpum 550 milljónum Bandaríkjadala, eða um 68,8 milljörðum króna, varið í ráðuneytið.

Umhverfisráðherra Brasilíu hefur óskað eftir því að fjárveitingarnar verði endurskoðaðar og verði í samræmi við loforð Bolsonaros.


Tengdar fréttir

Banda­ríkin vilja leiða bar­áttuna gegn lofts­lags­vánni

Bandaríkin kynntu í dag nýja lofslagsáætlun en ríkið stefnir á að draga úr mengun gróðurhúsalofttegunda um 50-52 prósent, miðað við losun árið 2005, fyrir 2030. Joe Biden Bandaríkjaforseti kynnti áætlunina á loftslagsráðstefnu í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×