Erlent

Indverskar bálstofur ráða ekki við álagið

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Þúsundir Indverja látast nú á hverjum degi af völdum kórónuveirunnar. Í Virar, bæ nærri Mumbai, hefur þessari bráðabirgðabálstofu verið komið upp.
Þúsundir Indverja látast nú á hverjum degi af völdum kórónuveirunnar. Í Virar, bæ nærri Mumbai, hefur þessari bráðabirgðabálstofu verið komið upp. AP/Rajanish Kakade

Indverskar bálstofur anna ekki eftirspurn vegna versnandi kórónuveirufaraldurs. Tæplega 2.800 létust af völdum veirunnar í landinu í gær.

Undir berum himni í höfuðborginni Nýju-Delí hefur bráðabirgðabálstofu verið komið upp til að brenna hin látnu. Verið er að koma upp sams konar aðstöðu í til dæmis almenningsgörðum og á bílastæðum víðar í borginni en álagið er margfalt meira en afkastageta bálstofa í Nýju-Delí.

Gærdagurinn var sá fyrsti í fimm daga þar sem Indverjar slógu ekki heimsmet í fjölda smitaðra á einum degi. Þó greindust rétt tæp 320 þúsund með veiruna og yfirvöld segja að raunverulegur fjöldi sé líklega töluvert meiri.

Færri komast enn að á sjúkrahús en þurfa og súrefni er af afar skornum skammti. Tilraunir stjórnvalda til að leysa úr súrefnisskorti hafa ekki enn borið árangur.

„Við erum úrvinda. Það hafa samt ekki alveg jafnmargir látist hér og á öðrum bráðamóttökum. Ég fæ um 50 símtöl á hverjum degi þar sem fólk er að biðja um sjúkrapláss, súrefniskúta, lyf. Við eigum einfaldlega ekkert slíkt og sjúklingarnir eru við dauðans dyr,“ sagði Piush Girdar, læknir í Nýju-Delí, við AP-fréttaveituna í dag.

Fyrstu hjálparsendingarnar bárust til Indlands í morgun. Flugvél frá Bretlandi lenti í Nýju-Delí með 95 súrefnisþjöppur og 200 öndunarvélar. Bandaríkjamenn, Þjóðverjar, Ísraelar og Pakistanar hafa einnig lofað að senda nauðsynjar til þessa næstfjölmennasta lands heims.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×