Erlent

Fögnuðu sigri gegn Co­vid en vöknuðu upp við vondan draum

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Flestum íþróttahöllum og skólum hefur nú verið breytt í bráðabirgðaspítala á Indlandi til að takast á við aðra bylgju faraldursins.
Flestum íþróttahöllum og skólum hefur nú verið breytt í bráðabirgðaspítala á Indlandi til að takast á við aðra bylgju faraldursins. AP/Dar Yashin

Tvö hundruð þúsund hafa nú látist af völdum kórónuveirunnar á Indlandi. Fleiri hafa einungis látist í Bandaríkjunum, Brasilíu og Mexíkó en ástandið hefur versnað hratt á Indlandi síðustu vikur.

Sár skortur er á súrefni, öndunarvélum og öðrum nauðsynjum til að sinna sjúklingum. Sjúkrahús ráða engan veginn við álagið.

Tæplega 3.300 létust af völdum veirunnar í landinu í gær og fleiri en 360 þúsund greindust, sem er met í heiminum. Önnur bylgja faraldursins ríður nú yfir í þessu næstfjölmennasta ríki heims og er hún miklum mun verri en sú fyrri.

Hápunktur fyrri bylgjunnar var þann 11. september þegar 98 þúsund greindust en með haustinu lægði og eftir áramót voru færri en tuttugu þúsund að greinast dag hvern. Seinni bylgjan skall svo á í mars og síðustu vikur hefur hvert metið fallið á fætur öðru.

Undanfarna daga hafa stjórnvöld skráð fleiri en 2.000 dauðsföll dag hvern vegna veirunnar en segja þó að raunverulegur fjöldi sé líklegast töluvert hærri.

Hundruð þúsunda greinast nú með veiruna á hverjum degi á Indlandi.EPA/Divyakant Solanki

Sár skortur

Hamfaraástand ríkir á sjúkrahúsum landsins og mun færri komast að en þurfa. Eins og stendur eru um tuttugu þúsund á sjúkrahúsi í Nýju-Delí einni og margfalt fleiri á landsvísu.

Þeir sem eru svo heppnir að fá pláss á sjúkrahúsum geta þó ekki fengið þá þjónustu sem þörf er á enda er sömuleiðis skortur á súrefni, öndunarvélum og öðrum nauðsynjum. AP-fréttaveitan segir fjölskyldur sjúklinga leita logandi ljósi að súrefniskútum um allan bæ en ekkert gengur.

Samkvæmt gögnum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar er þörf á um þrettán milljónum rúmmetra af súrefni fyrir Covid-sjúklinga á dag á Indlandi, meira en í nokkru öðru ríki. PATH, lýðheilsusamtök sem starfa meðal annars á Indlandi, segja að eftirspurnin aukist um sex til átta prósent á hverjum degi.

Þessi súrefnisþörf, sem hefur tífaldast frá áramótum og er þreföld á við það sem var þegar fyrri bylgjan reið yfir, er meiri en ríkið hefur tök á að svara og deyr fólk nú á sjúkrahúsum sem hefði lifað ef það hefði fengið súrefni.

Yfirvöld hafa reynt að leysa vandann en án teljandi árangurs. Breska ríkisútvarpið hafði eftir Rajesh Bhushan heilbrigðisráðherra að alla jafna fengi heilbrigðiskerfið um 15 prósent alls súrefnis landsins. Nú fái það um níutíu prósent.

Herinn sér nú um að flytja það súrefni sem til er á milli borga og borgir og ríki reyna að flytja það inn að utan. Hæstiréttur landsins hefur biðlað til ríkisstjórnar Narendra Modi forsætisráðherra að setja fram heildstæða Covid-stefnu og leysa úr súrefnisskortinum.

Ekki bara súrefnið

Eins og áður segir er einnig skortur á öndunarvélum og plássi. Jafnvel þótt íþróttahöllum, skólum og öðrum stórum byggingum hafi verið breytt í bráðabirgðasjúkrahús fær fárveikt fólk enn ekki pláss vegna gríðarlegs fjölda alvarlega veikra.

Öndunarvélar eru sömuleiðis af skornum skammti. Sjúkrahús hafa ekki viljað taka á móti þeim fáu öndunarvélum sem framleiddar eru innanlands vegna óáreiðanleika, samkvæmt indverskum miðlum, og ríkisstjórnin hætti við áform sín um að panta fleiri slíkar öndunarvélar.

Hjálp að utan

Önnur ríki leitast nú við að koma Indverjum til aðstoðar vegna versnandi stöðu. Bretar hafa þegar flogið með súrefnisþjöppur, öndunarvélar og annan búnað til landsins og Þjóðverjar, Bandaríkjamenn, Pakistanar og fleiri ríki hyggjast gera slíkt hið sama.

„Við stöndum með Indverjum bæði sem vinir og bandamenn á þessum erfiðu tímum í baráttunni við kórónuveiruna,“ sagði Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands.

Þjóðaröryggisráðgjafi Bandaríkjaforseta átti símafund með indverskum kollega sínum um helgina þar sem hann hét því að senda öndunarvélar og lyf og þá hyggjast Bandaríkjamenn einnig fjármagna uppbyggingu verksmiðja sem framleiða bóluefni á Indlandi.

Brennd undir berum himni

Hjálparsendingarnar eru hins vegar fæstar komnar og staðan í höfuðborginni Nýju-Delí, sem og víðar, er afar slæm. Bálstofur ráða engan veginn við mikinn fjölda dauðsfalla og bráðabirgðaaðstöðu hefur verið komið upp á bílastæðum og í görðum Nýju-Delí. Hin látnu eru brennd undir berum himni.

AP-fréttaveitan ræddi í dag við Amit Kaushik, íbúa í borginni og einn af fjölmörgum sem hefur misst ástvin síðustu vikurnar. Samkvæmt opinberri tölfræði deyja nú um 380 á dag af völdum Covid-19 en Kaushik sagði rétta tölu trúlega í kringum þúsund. Þetta mat byggi hann á heimsóknum á bæði sjúkrahús og bálstofur borgarinnar.

Narendra Modi forsætisráðherra hefur verið harðlega gagnrýndur fyrir sein viðbrögð.EPA-EFE/PRESS INFORMATION BUREAU

Aðgerðaleysi

Greina má mikla reiði í garð stjórnvalda bæði í höfuðborginni og landinu öllu vegna bæði seinna viðbragða við annari bylgju faraldursins og súrefnisskortsins.

Ákvarðanir ríkisstjórnar Modis um að heimila stærðarinnar kosningafundi og hátíðahöld hafa vakið litla lukku á meðal landsmanna og þá eru stjórnvöld einstakra ríkja sökuð um aðgerðaleysi sömuleiðis. Reglum um grímuskyldu hefur lítið verið framfylgt í landinu og skortur er sagður á skýrum skilaboðum til landsmanna.

Þá brugðust ráðamenn seint við þegar ljóst var að önnur bylgja var að skella á landinu. Modi-stjórnin hreykti sér að því að hafa sigrast á veirunni og formaður lýðheilsustofnunar landsins lét falla digurbarkaleg ummæli um að ekki þyrfti að bólusetja landsmenn vegna náttúrulegs ónæmis.

Indverjar hafa mótmælt stjórnvöldum harðlega á veraldarvefnum og krafist aðgerða. Það vakti því litla lukku þegar ríkisstjórnin krafðist þess um helgina, og fékk í gegn, að samfélagsmiðillinn Twitter fjarlægði innlegg þar sem viðbrögð stjórnvalda við faraldrinum voru gagnrýnd.


Tengdar fréttir

Koma Indverjum til aðstoðar

Fjöldi ríkja kemur nú Indverjum til aðstoðar en kórónuveirufaraldurinn er í hæstu hæðum í þessu næstfjölmennasta landi heims.

350.000 greindust með Covid-19 á Indlandi í gær og 2.500 létust

Bretar, Bandaríkjamenn og Evrópusambandið undirbúa nú aðstoð til handa Indverjum en kórónuveirufaraldurinn er nú á háalvarlegu stigi í landinu. Tæplega þrjúhundruð og fimmtíuþúsund manns greindust smituð þar í gær og um 2.500 létust.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×