Erlent

Drottningin látin fá­einum vikum eftir lát konungsins

Atli Ísleifsson skrifar
Shiyiwe Mantfombi Dlamini Zulu. Súlúmenn telja um ellefu milljónir, eða um átján prósent suður-afrísku þjóðarinnar.
Shiyiwe Mantfombi Dlamini Zulu. Súlúmenn telja um ellefu milljónir, eða um átján prósent suður-afrísku þjóðarinnar. Twitter

Shiyiwe Mantfombi Dlamini Zulu, drottning Súlúmanna í Suður-Afríku, er látin, 65 ára að aldri. Hún lést einungis fáeinum vikum eftir að eiginmaður hennar, Goodwill Zwelithini konungur, lést.

Zwelithini andaðist 12. mars síðastliðinn, 72 ára að aldri. Ein sex eiginkvenna konungsins tók þá við völdum og skyldum konungborins þjóðhöfðingja Súlúmanna, en sá er leiðtogi stærsta þjóðarbrots Suður-Afríku og hefur almennt haft mikil áhrif á samfélag sinna manna í landinu.

Súlúmenn telja um ellefu milljónir, eða um átján prósent suður-afrísku þjóðarinnar. Goodwill Zwelithini var afkomandi Cetshwayo konungs sem leiddi þjóð Súlúmanna í stríðinu við Breta árið 1879. Zwelithini settist á konungsstól árið 1968 þegar faðir hans lést.

Shiyiwe Mantfombi Dlamini Zulu drottning var lögð inn á sjúkrahús skömmu eftir lát eiginmanns síns, en í morgun greindi Mangosuthu Buthelezi, sem gegnir ígildi embættis forsætisráðherra Súlúmanna, frá því að drottningin væri látin. „Við erum orðlaus, þetta kom mjög á óvart.“

Talið er að hinn 46 ára Misuzulu Zulu prins, elsti sonur Dlamini Zulu, muni nú taka við embætti konungs Súlúmanna.

Cyril Ramaphosa, forseti Suður-Afríku, minnist hinnar drottningarinnar á Twitter þar sem hann sendir samúðarkveðjur til konungskjölfskyldunnar og þjóð Súlúmanna.


Tengdar fréttir

Konungur Súlúmanna fallinn frá

Goodwill Zwelithini, konungur Súlúmanna í Suður-Afríki, er látinn, 72 ára að aldri. Hann lést á sjúkrahúsi þar sem hann hafði notið aðhlynningar að undanförnu vegna einkenna sykursýki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×