Innlent

Um­ræðan undan­farin ár vegið þyngst í við­horfs­breytingunni

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Helgi Gunnlaugsson er sérfræðingur í afbrotafræðum.
Helgi Gunnlaugsson er sérfræðingur í afbrotafræðum. Vísir/Vilhelm

Afbrotafræðingur telur aukna umræðu og upplýsingaflæði síðustu ár vega þyngtst í breyttu viðhorfi almennings til afglæpavæðingar neysluskammta fíkniefna. Ríkislögreglustjóri og Læknafélag Íslands eru á meðal þeirra sem leggjast gegn nýju frumvarpi heilbrigðisráðherra um afglæpavæðingu.

Fréttablaðið greindi frá nýrri könnun Félagsvíndastofnunar Háskóla Íslands á forsíðu sinni í gær. Samkvæmt niðurstöðum hennar eru sextíu prósent landsmanna fylgjandi afglæpavæðingu neysluskammta fíkniefna en frumvarp heilbrigðisráðherra þess efnis er nú til afgreiðslu á Alþingi.

Þetta er umtalsverð breyting en í sambærilegum könnunum árin 2015, 2017 og 2019 studdi um þriðjungur afglæpavæðingu. Helgi Gunnlaugsson afbrotafræðingur telur umræðuna síðustu ár eiga mestan þátt í viðhorfsbreytingunni.

„Og það sem er að gerast er að þessi viðhorfsbreyting til fíkniefna er að færast frá því að þetta sé refsiréttarmál eða réttarvörslumál, heldur beri að líta meira á þetta sem heilbrigðisvanda,“ segir Helgi.

Áður hafi stuðningurinn helst mælst í röðum yngri karla.

„En nú erum við að sjá þennan stuðning fara yfir í eldri aldurshópa og einnig meðal kvenna.“

Ríkislögreglustjóri og Læknafélag Íslands eru á meðal þeirra sem leggjast gegn frumvarpi heilbrigðisráðherra í núverandi mynd. Telur Helgi að það geti haft áhrif á viðhorf almennings?

„Það gæti alveg gert það, þegar umræða fer á flug við afgreiðslu frumvarpsins á alþingi þá munum við heyra ýmis sjónarmið. Og það er alveg mögulegt að sumir muni telja að afglæpavæðing sé að einhverju leyti undanhald, að það sé að einhverju leyti verið að viðurkenna að þessi efni séu ekki eins hættuleg eins og þau voru.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×