Kosningarnar í Vestur-Bengal og fjórum öðrum ríkjum fóru fram í skugga ófremdarástands vegna faraldursins. Fleiri en 300.000 manns hafa nú greinst smitaðir af veirunni á hverjum einasta degi í tíu daga í röð. Í gær var slegið met um dauðsföll á einum degi þegar greint var frá 3.689 dauðsföllum.
Svo svart er ástandið að sjúkrahús skortir fleiri pláss og súrefni til að gefa sjúklingum í andnauð. Að minnsta kosti tólf sjúklingar létust þegar súrefni kláraðist á sjúkrahúsi í Delí í gær, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.
Þrátt fyrir stöðu faraldursins háði BJP-flokkur Modi forsætisráðherra umfangsmikla kosningabaráttu í Vestur-Bengal. Modi sjálfur ferðaðist ítrekað þangað á kosningafundi. Fjöldafundirnar og kosningarnar hafa verið tengdar við fjölgun smitaðra þar og Modi hefur sætt harðri gagnrýni fyrir að vanrækja skyldur sínar sem forsætisráðherra með tíðum ferðum sínum til að vinna hugi og hjörtu Bengala.

Allt kom þó fyrir ekki og fór Mamata Banjeree, sitjandi ríkisstjóri Vestur-Bengal, og flokkur hennar með sigur af hólmi. Banjeree hefur verið harður gagnrýnandi Modi. Sigur hennar kom stjórnmálaskýrendum á óvart í ljósi þess hversu miklu flokkur Modi tjaldaði til í kosningabaráttunni, bæði tíma og peningum, að því er BBC segir frá.
Banjeree sagði að úrslitin í Vestur-Bengal hefðu bjargað Indlandi og að hún ætlaði að gerast baráttuna við faraldurinn að helsta forgangsmáli sínu. Sjálf tapaði hún þó sæti sínu á ríkisþinginu fyrir fyrrverandi aðstoðarmanni sem gekk til liðs við BJP. Segist Banjeree ætla að skjóta úrslitum til dómstóla.