Innlent

Vill fjölga jöfnunar­þing­sætum sem Katrín segir til skoðunar

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Ólafur Þ. Harðarson, prófessor í stjórnmálafræði, gagnrýnir að Alþnigi ætli ekki að leiðrétta kosningalög og fjölga þar með jöfnunarþingsætum fyrir næstu Alþingiskosningar.
Ólafur Þ. Harðarson, prófessor í stjórnmálafræði, gagnrýnir að Alþnigi ætli ekki að leiðrétta kosningalög og fjölga þar með jöfnunarþingsætum fyrir næstu Alþingiskosningar. Vísir

Ólafur Þ. Harðarson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, birti í morgun Facebook-færslu þar sem hann gagnrýnir að Alþingi ætli ekki að leiðrétta kosningalög og fjölga þar með jöfnunarþingsætum fyrir næstu Alþingiskosningar. Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, segir að taka þurfi málið til skoðunar.

„Við höfum verið að ræða þetta lauslega á vettvangi stjórnarskrárbreytinga en eins og kunnugt er þá þarf samt ekki stjórnarskrárbreytingu til þess að jafna vægi atkvæða milli kjördæma, þó að það sé hins vegar eitthvað sem við þurfum að taka til skoðunar,“ sagði Katrín fyrir utan ráðherrabústaðinn, eftir ríkisstjórnarfund, í morgun.

Ólafur Þ. Harðarson birti færslu á Facebook í morgun þar sem hann gagnrýndi núverandi kosningakerfi. Þar sé jafnt vægi atkvæða eftir flokkum ekki tryggt. Það hafi hins vegar verið skýrt markmið stjórnarskrár og kosningalaga frá árinu 1987.

„Frá 1987-2009 tókst að jafna vægi atkvæða eftir flokkum. Fjöldi þingmanna hvers flokks var í samræmi við atkvæðamagn á landsvísu. En 2013, 2016 og 2017 fékk einn flokkur (B eða D) í hvert skipti aukamann, þ.e. einum þingmanni meira en honum bar væri atkvæðavægi jafnt eftir flokkum,“ skrifar Ólafur í færslunni.

Fengi einn þingmann en ætti að fá þrjá ef enginn þröskuldur væri

Hann segir að í nýlegri könnun Gallup megi sjá að átta flokkar nái að tryggja sér þau fimm prósent atkvæða sem til þurfti til að flokkur fái jöfnunarsæti. Í núverandi kosningakerfi eru 54 þingsæta kjördæmasæti og níu jöfnunarsæti sem skipt eru á milli flokka.

Könnun Gallup sem birt var í gær sýnir glögglega að í núverandi kosningakerfi er jafnt vægi atkvæða eftir flokkum ekki...

Posted by Ólafur Þ Harðarson on Monday, May 3, 2021

Samkvæmt könnuninni fá t.a.m. Flokkur fólksins engan jöfnunarþingmann, en í henni er flokkurinn með 4,7 prósent fylgi, og einn kjördæmakjörinn þingmann. Væri enginn þröskuldur myndu þessi 4,7 prósent hins vegar tryggja flokknum þrjá þingmenn en miðað við núverandi kerfi hlyti flokkurinn aðeins einn þingmann og falli atkvæði flokksins því „dauð“ að sögn Ólafs.

„Ég hefði kosið að það yrði rætt í næsta áfanga. Þetta er bara eitthvað sem þarf að taka til skoðunar og ég vil segja það að það er forseti þingsins sem hefur núna haldið utan um breytingar á kosningalögum,“ sagði Katrín

Hluti breytinga á kosningalögum ekki hugsaður fyrir næstu kosningar

„Þrátt fyrir þessi dauðu atkvæði dugar fjöldi jöfnunarsæta ekki til að jafna milli hinna flokkanna. Sjálfstæðisflokkur fengi einn aukamann – hann fær 17 kjördæmakjörna þingmenn en ætti að fá 16 alls – ef rétt væri skipt,“ skrifar Ólafur.

„Með því að fjölga jöfnunarsætum í kosningalögum er auðvelt að tryggja jafnt vægi atkvæða milli flokka sem fá a.m.k. 5% atkvæða á landsvísu,“ skrifar Ólafur. „Það er Alþingi til skammar að hafa ekki brugðist við og fjölgað jöfnunarsætum strax eftir kosningarnar 2013. Það bítur höfuðið af skömminni ef það samþykkir ekki breytingar á kosningalögum fyrir kosningarnar í haust.“

„Ég er ekki búin að fara yfir það hvernig nákvæmlega þetta kemur út en ég held að það sé mikilvægt að þetta verði skoðað í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd sem er með kosningalög til meðferðar,“ sagði Katrín aðspurð.

Fyrir næstu kosningar?

„Ja, mig minnir reyndar að hluti af þeim sé ekki hugsaður fyrir næstu kosningar, það er að segja sá hluti. En þetta verður væntanlega tekið til skoðunar þar.“


Tengdar fréttir

Ef landið væri eitt kjördæmi myndu öll framboðin ná manni inn

Ef landið væri allt eitt kjördæmi og enginn þröskuldur væri fyrir því að fá þingsæti myndu öll fimmtán framboðin sem bjóða fram til þingkosninganna nái manni inn á þing. Þetta segir stjórnmálafræðingur. Hann segir mögulegt að stuðningsmenn minni flokka skipti um skoðun á kjördag þegar skoðanakannanir sýni að 11% atkvæða muni falla dauð.

Tvær flugur, eitt kjördæmi

Í viðtali sem Ríkisútvarpið tók á dögunum við Ólaf Þ. Harðarson, prófessor í stjórnmálafræði, kom fram að jöfnunarsæti í kosningum til Alþingis séu of fá til að tryggja jöfnuð milli þingflokka í samræmi við atkvæðamagn á landsvísu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×