Í dómnum kemur fram að þáverandi sambýlismaður konunnar, sem einnig var ákærður í málinu, hafi verið sýknaður af ákæru um að hafa haldið drengnum föstum á meðan móðirin sló hann ítrekað í andlitið svo blæddi úr munni. Sagðist maðurinn hafa stokkið inn í alvarlegar aðstæður í samskiptum mæðginanna og ekki gert annað en að taka utan um drenginn og haldið höndum hans föstum fyrir aftan bak til að koma í veg fyrir að „drengurinn hjólaði í móður sína“.
Vildi ekki slökkva á tölvunni
Atvikið átti sér stað í febrúar á síðasta ári, en konan var sakfelld fyrir brot í nánu sambandi og brot á barnaverndarlögum.
Umrætt atvik átti sérstað 19. febrúar 2020, en drengurinn sagðist þá ekki vilja fara sofa klukkan 23 líkt og hann var beðinn um, þar sem það væri ekki skóli daginn eftir. Móðirin hafi þá slökkt á netbeini og drengurinn við það reiðst mjög. Segir að sambýlismaður móðurinnar hafi svo blandað sér í málið, verið „mjög reiður“ og haldið drengnum.
Móðurinni og manninum, sem voru á þeim tímapunkti nýbyrjuð saman, bar ekki saman um hvað hafi gerst umrætt kvöld. Neituðu þau bæði sök og vísuðu ábyrð á því sem gerðist umrætt sinn ýmist yfir á hvort annað eða þá drenginn.
Sleginn ítrekað í andlit með flötum lófa
Dómurinn taldi það hins vegar yfir skynsamlegan vafa, þrátt fyrir eindregna sakarneitun, að móðirin hafi veist að drengnum með ofbeldi og slegið hann ítrekað í andlitið með flötum lófa þannig að blæddi úr munni hans. Var því hafnað, líkt og kom fram í framburði móðurinnar, að hún hafi valdið áverka í munni drengsins með því að grípa um munn hans.
Var háttsemi konunnar gagnvart barni sínu þess utan talin hafa verið „ógnandi, ruddaleg, ósiðleg og undir engum kringumstæðum réttlætanleg“.
Konan var dæmd til greiðslu hálfrar milljónar í miskabætur til drendsins, auk greiðslu sakarkostnaðar, um tvær milljónir króna.