Enski boltinn

Segja trú­verðug­leika mark­manns­þjálfara Arsenal hafa dvínað vegna frammi­stöðu Leno og kaupanna á Rúnari Alex

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Iñaki Caña ásamt Bernd Leno, Matt Macey og Rúnari Alex Rúnarssyni.
Iñaki Caña ásamt Bernd Leno, Matt Macey og Rúnari Alex Rúnarssyni. Stuart MacFarlane/Getty Images

The Athletic fjallaði um vandræði enska úrvalsdeildarfélagsins Arsenal á dögunum. Þau eru fjölmörg og mun taka sinn tíma að koma liðinu á réttan kjöl á ný.

Rúnar Alex Rúnarsson er nefndur í greininni þar sem markmannsþjálfari liðsins fær heldur betur á baukinn fyrir frammistöðu Bernd Leno á tímabilinu sem og að hafa sannfært Mikel Arteta, þjálfara liðsins, um að festa kaup á íslenska landsliðsmarkverðinum.

Farið er gaumgæfilega yfir hvað hefur farið úrskeiðis hjá enska félaginu, hverjar ástæðurnar gætu verið og hvað þarf að laga. Síðan Arteta tók við hefur hann fengið að ráða þá þjálfara sem hann vill og stjórnar hann í raun eins miklu og mögulegt er.

Talið er að mögulega séu Arteta og Edu, tæknilegur ráðgjafi félagsins, ekki nægilega reynslumiklir fyrir félag af þessari stærðargráðu. Þá er nefnt hvernig félagið er að reyna spara á ákveðnum sviðum til að eyða enn meira á öðrum. 

Til að mynda með því að segja 55 starfsmönnum upp síðasta sumar vegna kórónufaraldursins en festa svo kaup á Thomas Partey fyrir 50 milljónir evra.

Heimildir Athletic telja að David Luiz, Willian, Bernd Leno, Granit Xhaka og Hector Bellerin vilji allir yfirgefa félagið í sumar. Þá hafa sumar ákvarðanir Arteta orsakað undrun þeirra sem koma að liðinu, til dæmis þegar hann ákvað að spila Emile Smith Rowe sem falskri níu í fyrri leiknum gegn Villareal.

Frammistaða þýska markvarðarins er svo ein af ástæðum þess að orðspor og trúverðugleiki hins 45 ára gamla Iñaki Caña, markmannsþjálfara félagsins, fer minnkandi dag frá degi. Arteta gaf Caña fullt traust eftir að sótt landa sinn til Brentford. 

Var reynslumiklum þjálfurum á borð við Sal Bibbo og Andy Woodman sagt upp svo Caña gæti mótað þjálfun markvarða Arsenal algjörlega eftir sínu höfði.

Bernd Leno hefur ekki átt sjö dagana sæla á þessari leiktíð.EPA-EFE/ANDY RAIN

Þar kemur Rúnar Alex Rúnarsson til sögunnar en hann og Caña unnu saman hjá Nordsjælland í Danmörku á sínum tíma. Caña sannfærði Arteta um að festa kaup á Rúnari Alex eftir að Emi Martinez var seldur til Aston Villa.

Í greininni er sagt að Rúnar Alex hafi lítið fengið að spila og lítið sýnt þegar hann spilar. Mögulegt sé að Arteta sé hættur að treysta landa sínum í sömu blindi og í upphafi sambands þeirra.

Að lokum er tekið fram að vandamál Arsenal séu margslungin og það verði hægara sagt en gert að laga þau. Til þess mun félagið þurfa að eyða töluvert af fjármagni. Það er ef það vill blanda sér í toppbaráttu ensku úrvalsdeildarinnar aftur á næstunni.

Arsenal er sem stendur í 8. sæti ensku úrvalsdeildinni að loknum 36 leikjum með 55 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×