Enski boltinn

Vissi ekki að Leicester hefði aldrei unnið bikarinn þegar hann tók við

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Formaður Leicester City, Aiyawatt Srivaddhanaprabha, og þjálfari liðsins, Brendan Rodgers, fagna FA-bikar sigrinum á Chelsea í dag.
Formaður Leicester City, Aiyawatt Srivaddhanaprabha, og þjálfari liðsins, Brendan Rodgers, fagna FA-bikar sigrinum á Chelsea í dag. EPA-EFE/Nick Potts

Brendan Rodgers, þjálfari Leicester City, var í sjöunda himni er hann ræddi við blaðamenn eftir 1-0 sigur sinna manna á Chelsea í úrslitum FA-bikarsins í dag. 

Rodgers sagðist ekki hafa vitað að félagið hefði aldrei unnið bikarinn er hann tók við stjórnaraumunum í febrúar 2019.

„Þetta er frábær tilfinning. Áður en ég tók við þá vissi ég ekki að félagið hefði aldrei unnið FA bikarinn. Þeir hafa tapað í fjórum síðustu úrslitaleikjum sem þeir hafa komist í svo ég er mjög ánægður með að gefa stuðningsfólkinu og eigendunum þennan titil.“

„Ég er mjög stoltur. Stjórnin, starfsfólkið, leikmennirnir, stuðningsfólkið. Þetta er frábær dagur fyrir borgina og ég er svo ánægður fyrir hönd þeirra allra.“

Um markið

„Mark Youri Tielemans var eins og mörkin sem unnu FA bikarinn í gamla daga en markvörslur Kasper Schmeichels, þær voru sérstakar og þú þarft svona markvörslur í svona leikjum.“

„Í heildina vorum við betri aðilinn, pressuðum vel og vorum alltaf ógnandi með boltann. Chelsea er hins vegar frábært lið og það er ástæðan fyrir því að þeir eru í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu en mér fannst við eiga þetta skilið.“

Hvað þýðir sigurinn fyrir Rodgers

„Þetta er virkilega sérstakt. Skiptir mjög miklu máli fyrir okkur, ég er svo stoltur en aðallega ánægður fyrir hönd allra hinna.

„Árangur félagsins er að komast í stöður eins og þessar og þvílíkur dagur fyrir alla tengda Leicester-liðinu.“

„Ég vona að Gary njóti þess. Ég veit hans sögu frá því hann var ungur og ég vona að hann verði grátandi gleðitárum,“ sagði Rodgers að lokum um Gary Lineker, fyrrum enskan landsliðsmann og einn helsta stuðningsmann Leicester City.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×