Enski boltinn

Alis­son sá til þess að ör­lögin eru í höndum Liver­pool

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Örskömmu síðar söng boltinn í netinu.
Örskömmu síðar söng boltinn í netinu. EPA-EFE/Tim Keeton

Það stefndi allt í 1-1 jafntefli í leik West Bromwich Albion og Liverpool í ensku úrvalsdeildinni í gær þegar brasilíski markvörðurinn Alisson steig upp og tryggði Liverpool ótrúlegan 2-1 sigur.

Í leik gærdagsins leit ekki út fyrir að Liverpool næði að knýja fram sigur. Það hefði þýtt að möguleikar liðsins á að ná Meistaradeildaræsti væru litlir sem engir þegar tvær umferðir væru eftir af ensku úrvalsdeildinni.

Það var hins vegar á fjórðu mínútu uppbótartíma þegar Trent Alexander-Arnold tók hornspyrnu að Alisson var mættur. Boltinn var eins og teiknaður á kollinn á markverðinum sem stýrði honum í netið líkt og hann hefði aldrei gert neitt annað.

Það er því Alisson að þakka að ef Liverpool vinnur báða leikina sem það á eftir í ensku úrvalsdeildinni þá nær liðið Meistaradeildarsætið, þó svo að liðið sé enn í 5. sæti deildarinnar.

Þannig er hins vegar mál með vexti að Chelsea og Leicester City eiga eftir að mætast og því er það undir Liverpool komið hvort liðið nær Meistaradeildarsæti eður ei. Alisson vildi lítið spá í því er hann mætti í viðtal að leik loknum í gær en markvörðurinn knái var vægast sagt meyr. Það hefur mikið gengið á í lífi hans að undanförnum og hann gat ekki haldið aftur tárunum.

Chelsea og Leicester mætast á þriðjudaginn á meðan Liverpool heimsækir Burnley á miðvikudaginn. Lokaumferð deildarinnar fer svo fram 23. maí. Chelsea heimsækir Aston Villa, Leicester fær Tottenham Hotspur í heimsókn á meðan Liverpool tekur á móti Crystal Palace.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×