Lífið

Rúm­lega helmingur spáir Ís­landi í einu af tíu efstu sætunum

Atli Ísleifsson skrifar
Konur reyndust líklegri en karlar til að spá Daða og Gagnamagninu einu af tíu efstu sætum Eurovision í ár.
Konur reyndust líklegri en karlar til að spá Daða og Gagnamagninu einu af tíu efstu sætum Eurovision í ár. EPA

Rúmlega helmingur íslensku þjóðarinnar, 54 prósent, spáir Daða og Gagnamagninu einu af tíu efstu sætunum í Eurovision í ár. Um sjö prósent spáir íslenska framlaginu einu af þremur neðstu sætum keppninnar.

Þetta er niðurstaða skoðanakönnunar MMR um gengi Íslands á Eurovision í ár. Könnunin var framkvæmd dagana 7. til 12. maí, það er nokkru áður en ljóst var að Ísland myndi ekki stíga á stóra sviðið og upptaka af seinni æfingunni þess í stað spiluð á undanúrslitakvöldinu og þá mögulega úrslitakvöldinu, vegna kórónuveirusmits í íslenska hópnum.

Í tilkynningu frá MMR segir að 88 prósent svarenda hafi spáð íslenska framlaginu, 10 Years, meðal þeirra 25 efstu í keppninni og þar með þátttöku í lokakeppni Eurovision á laugardagskvöld.

„Konur (57%) reyndust líklegri en karlar (49%) til að spá Daða og Gagnamagninu einu af 10 efstu sætum Eurovision í ár.

Bjartsýnin reyndist mest meðal svarenda í yngsta aldurshópi en 59% þeirra spáðu Daða og félögum sæti meðal 10 efstu og einungis 4% spáðu þeim sæti meðal þriggja neðstu.

Þá reyndust svarendur af höfuðborgarsvæðinu (56%) líklegri en þau af landsbyggðinni (48%) til að spá Daða og Gagnamagninu einu af 10 efstu sætum keppninnar.

Stuðningsfólk Vinstri-grænna (69%), Pírata (68%), Samfylkingarinnar (67%) og Sósíalistaflokks Íslands (62%) reyndust líklegust til að spá Daða og Gagnamagninu einu af 10 efstu sætunum en stuðningsfólk Miðflokksins (35%) og Sjálfstæðisflokksins (44%) reyndist ólíklegast,“ segir í tilkynningunni.

Heildarfjöldi svarenda 953 einstaklingar, 18 ára og eldri.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×