Enski boltinn

Harry Kane endur­tók leik Andy Cole frá 1994

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Harry Kane fagnar einu marka sinna á leiktíðinni.
Harry Kane fagnar einu marka sinna á leiktíðinni. Tottenham Hotspur/Getty Images

Harry Kane endaði marka- og stoðsendingahæstur í ensku úrvalsdeildinni á nýafstaðinni leiktíð. Það er eitthvað sem engum hefur tekist síðan Andy Cole gerði slíkt hið sama tímabilið 1993/1994.

Tímabilið 1993 til 1994 lék Andy Cole með Newcastle United. Skoraði hann 34 mörk er Newcastle endaði í 3. sæti deildarinnar með 77 stig eftir 42 leiki en á þeim tíma voru 24 lið í ensku úrvalsdeildinni.

Harry Kane endaði tímabilið í ár með 23 mörk og 14 stoðsendingar. Kane hefði eflaust verið tilbúinn að fórna öðrum hvorum gullskónum fyrir 3. sætið sem Newcastle náði á sínum tíma en Tottenham endaði í 7. sæti með 62 stig.

Félagið er því á leið í Sambandsdeild Evrópu á næstu leiktíð en óvíst er hvort Kane verði enn í herbúðum Tottenham er næsta tímabil hefst. Þessi magnaði framherji vill róa á önnur mið og hefur verið orðaður við bæði liðin í Manchester-borg.

Ef markmið hans er að vinna titla þá er líklegt að blái hlutinn verði fyrir valinu. Það er ef Pep Guardiola – þjálfari Englandsmeistara Manchester City – hefur áhuga á að spila með framherja upp á topp á næstu leiktíð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×