Í kaffispjalli um helgar er rætt við fólk í ólíkum störfum. Við spyrjum alltaf um það hvenær fólk vaknar á morgnana, hvað er það fyrsta sem það gerir þá og hvenær fer fólk að sofa. Við spyrjum líka um skipulagið og helstu verkefnin í vinnunni.
Hvenær vaknar þú á morgnana?
„Fleiri daga en færri í vikunni, vakna ég á undan öllum nágrönnunum, hundinum og eiginmanninum, eða um hálf sex.
Hálfsofandi skunda ég frá Garðabænum og niður í World Class Laugum þar sem ég æfi með einni af minni bestu vinkonu, svo það er ekki bara hreyfingin sem er nærandi heldur lika spjallið sem ég næ við æfingarfélagana eldsnemma á morgnanna áður en vinnudagurinn byrjar.
Þá morgna sem ég æfi ekki eldsnemma, er ég nú yfirleitt komin á fætur ekki mikið seinna en sjö.“
Hvað er það fyrsta sem þú gerir á morgnana?
„Eftir hreyfingu, World Class eða morgungöngu með hundinn, er heilagur tími með kaffibollanum og stöðufund með eiginmanninum.
Eiginmaðurinn er yfirleitt búinn að skanna fréttamiðlana og gefur mér rapport á það helsta sem skiptir máli og því óþarfi fyrir mig að kíkja á nokkurn miðil fyrr en um hádegi.
En svo er líka farið yfir skipulag dagsins, hvort sem það er dagskrá barnanna, skutlið, kvöldmaturinn eða annað sem mögulega er á dagskrá þann daginn.
Hann er svo farinn á undan í vinnu og næ ég þá smá tíma með börnunum áður en þau fara í skóla, en sá tími er varið mjög misjafnlega; allt frá því að hlusta á píanóleik dótturinnar í að horfa á nýjast Minecraft videóið á youtube með syninum.“
Ertu enn alltaf á hlaupum?
„Það fer allt eftir því hvernig þú lítur á spurninguna. Ef þú spyrð fólkið í kringum mig þá er ég alltaf á hlaupum, frá einum stað og á annan með nóg af boltum í fanginu. En hvað formlegu hlaupin varða, þá hafa þeir hlaupaskór verið settir til hliðar þar sem göngutúrar með hundinn hafa meira tekið við.
Þá höfum við hjónin nýverið tekið upp að spila tennis sem innheldur reyndar alveg furðulega mikil hlaup og stefnum við á kepppni í tvíliðaleik í sumar og auðvita að spila í sólinni á Spáni við fyrsta tækifæri.
En ég tók upp á því að skrá mig í aukakennslu í sumar, svona til að vera viss um að ná að vinna eiginmanninn við tækifæri, sem er ennþá talsvert betri en ég.“
Í hvaða verkefni ertu að vinna helst í þessa dagana?
„Verkefnin eru mjög fjölbreytt þessa dagana og eru mörg þeirra annaðhvort á upphafsstigum eða á lokametrunum. Mér finnst upphaf sumar góður tími til að fara yfir liðinn vetur, hvað gekk vel hjá okkur og ígrunda vel áherslunar fyrir komandi vetur. Sumarið er góður tími til að skipuleggja og kafa dýpra í ákveðin verkefni.
Ég hef lagt mikla áherslu á fræðslu og menntamál hjá Samkaupum og nýverið settum við að af stað stjórnendanám sem hefur haft hug minn alla síðustu misseri í samstarfi við Háskólann á Bifröst. Ég hlakka mikið til að fylgja því eftir í sumar og hitta hópinn uppfullan af hugmyndum í ágúst.
Þá höfum við einnig verið að að setja áherslu á jafnréttismál í víðara samhengi, þar sem við erum að fara inn í samstarf við Mirru fræðslusetur sem leggur áherslu á erlenda starfsmenn á Íslandi og svo Samtökin ´78 til að opna á jafnrétti allra og fordómalaust umhverfi innan Samkaupa.“
Hvernig skipuleggur þú þig í vinnu?
„Dagatalið og Outlook er algjör líflína í vinnunni og raun í heimilslífinu líka. Þar skrái ég allt niður, í ákveðnum litakóðum eftir verkefnum, já eða börnum.
Ég nota svo ipadinn daglega, þar sem verkefnalisti dagsins er settur niður en hann samþættist við outlook, þannig að það er auðvelt að skrá verkefnin fram í tímann og vera alltaf með uppfærðan lista.
Ég passa að reyna að taka frá tíma alla daga, til að fara yfir verkefnalistann, skoða dagatalið og klára tölvupóstinn fyrir næsta dag. Tek frá tíma til að fókusa og passa að ofbóka mig ekki. Þó sumir myndu reyndar segja að það gangi misvel hjá mér, því dagatalið er yfirleitt þéttsetið allt að fjórum vikum fram í tímann.“
Hvenær ferðu að sofa á kvöldin?
„Ég vil trúa því að ég sé alltaf sofnuð um tíu leytið en þegar líður á vor og sumar, þá er eins og eitthvað breytist og færist þessi tími nær miðnætti. Mér finnst voða gott að enda daginn á einum þætti, sem geta stundum orðið fleiri en einn ef þeir eru spennandi og með því raskast aðeins þessi tími sem ég fer að sofa.“