Erlent

Ekki lengur krafa um nei­kvætt Co­vid-próf fyrir ferða­menn frá Norður­löndum

Atli Ísleifsson skrifar
Sænski innanríkisráðherrann kynnti breytingarnar á blaðamannafundi í dag. Myndin er úr safni.
Sænski innanríkisráðherrann kynnti breytingarnar á blaðamannafundi í dag. Myndin er úr safni. Getty

Sænsk stjórnvöld hafa ákveðið að aflétta kröfu um að ferðamenn sem koma frá Norðurlöndum sýni fram á neikvætt PCR-próf við komuna til Svíþjóðar. Nýjar reglur taka gildi síðasta dag maímánaðar og á þá við ferðamenn frá Danmörku, Finnlandi, Noregi og Íslandi.

Þetta kom fram í máli innanríkisráðherrans Mikael Damberg í dag þar sem hann kynnti breytingar á reglum á landamærum.

Ekki eru gerðar neinar breytingum sem eiga við um ferðamenn frá Svíþjóð og þurfa Svíar enn að sýna fram á neikvætt próf og mögulega sæta sóttkví þegar þeir ferðast er til annarra Norðurlanda.

„Hin norrænu löndin eru ekki reiðubúin að gera það sem Svíþjóð gerir. Við vorum síðust til að koma á takmörkunum og nú verðum við fyrst til að aflétta þeim,“ sagði Damberg.

Takmarkanir fyrir ferðamenn sem koma til Svíþjóðar frá öðrum aðildarríkjum Evrópusambandsins og evrópska efnahagssvæðisins verða þó áfram þær sömu til 30. júní hið minnsta og þurfa ferðamenn frá þeim ríkjum að sýna fram á neikvætt próf við komuna til Svíþjóðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×