Erlent

Fannst látinn úti í skógi klukku­tímum eftir að hann var dæmdur fyrir morð

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Maðurinn fannst dáinn í skóglendi í Örebro í dag.
Maðurinn fannst dáinn í skóglendi í Örebro í dag. EPA-EFE/Johan Nilsson

Sænskur karlmaður á fimmtugsaldri var í morgun dæmdur í átján ára fangelsi fyrir að hafa myrt ástkonu sína. Aðeins nokkrum klukkutímum síðar fannst maðurinn dáinn í skógi í Örebro í Svíþjóð. Annar karlmaður var handtekinn á vettvangi og er grunaður um að hafa banað honum.

Hin 45 ára gamla Lena Wessröm var tilkynnt týnd að morgni 15. maí 2018. Fjórum dögum síðar fannst lík hennar við vegkannt nærri heimili hennar í Nya Hjärsta hverfinu í Örebro. 47 ára gamall karlmaður, sem Lena hafði átt í leynilegu ástarsambandi við, var handtekinn stuttu síðar og ákærður fyrir morðið á Lenu. Aftonbladet greinir frá. 

Hann var sýknaður af morðin í héraðsdómi Örebro fyrr í þessum mánuði en endurupptökudómur dæmdi manninn í átján ára fangelsi í morgun. Maðurinn var laus ferða sinna þegar dómurinn var kveðinn upp og var hann ekki staddur í dómssal.

Lögregla fór þá af stað til að handtaka manninn en hann fannst látinn í skóglendi í borginni í dag. Lögreglan útilokar það ekki að maðurinn hafi verið myrtur og var karlmaður handtekinn á vettvangi.

Lögreglu barst tilkynning um að lík hafi fundist í skóglendinu klukkan 11:18 að staðartíma í Svíþjóð og hófst rannsókn þá þegar. Rannsóknardeild lögreglunnar leitar nú sönnunargagna á svæðinu og verið er að yfirheyra hinn grunaða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×