Erlent

Réðst á flug­freyju vegna á­greinings um grímu­skyldu

Sylvía Hall skrifar
Flugfreyjan hlaut talsverða áverka eftir höggin.
Flugfreyjan hlaut talsverða áverka eftir höggin. Skjáskot/Youtube

Tvær tennur flugfreyju hjá Southwest Airlines brotnuðu eftir að farþegi réðst á hana um borð og sló hana í höfuðið. Atvikið átti sér stað í innanlandsflugi í Bandaríkjunum og náðist á myndband.

Breska ríkisútvarpið birtir myndbandið á vef sínum í dag. Farþeginn, ung kona, lét höggin dynja á flugfreyjunni með fyrrnefndum afleiðingum en í myndbandinu má sjá að töluverðir áverkar hlutust af árásinni. 

Samkvæmt tölfræði flugmálayfirvalda í Bandaríkjunum hefur tilkynningum um óstýriláta hegðun meðal farþega fjölgað gífurlega milli ára, en í ár hafa þær verið 2.500. Til samanburðar hefur meðaltalið fyrri ár verið á bilinu 100 til 150.

Flest atvikin eru sögð tengjast grímuskyldu sem stjórnvöld hafa sett á, en farþegar hafa verið misánægðir með það að þurfa að bera grímu í almenningsrýmum.

Farþeginn sem réðst á konuna var handtekinn og hefur verið ákærður fyrir líkamsárás.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×