Enski boltinn

Tuchel stefnir á að losa sig við 14 leik­menn

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Mögulega var Tuchel hér að átta sig á að hann þyrfti að selja fjölda leikmanna í sumar.
Mögulega var Tuchel hér að átta sig á að hann þyrfti að selja fjölda leikmanna í sumar. EPA-EFE/Ben Stansall

Thomas Tuchel, þjálfari Evrópumeistara Chelsea, ætlar heldur betur að taka til í leikmannahópi liðsins sem er einkar fjölmennur. Alls eru 14 leikmenn sem hann stefnir á að selja í sumar samkvæmt Sky Sports.

Stærstu nöfnin á listanum eru Oliver Giroud, Tammy Abraham, Ross Barkley og Ruben Loftus-Cheek. Listinn var tekinn saman áður en Giroud framlengdi samning sinn en það er ljóst að Tuchel telur sig hafa not fyrir hinn 34 ára gamla franska sóknarmann á næstu leiktíð.

Chelsea hefur verið eitt duglegasta lið heims að kaupa leikmenn og lána þá til annarra liða ár eftir ár. Nú hefur Tuchel ákveðið að leikmennirnir verði ekki lánaðir heldur einfaldlega seldir.

Í gær var staðfest að AC Milan hefði ákveðið að nýta sér kaupréttinn á Fikayo Tomori. Milan borgar 28.5 milljónir evra fyrir þennan enska miðvörð sem var á láni hjá félaginu á síðustu leiktíð.

Tuchel getur því strikað yfir nafn Tomori á listanum en enn eru 13 leikmenn eftir. Það ætti ekki að vera erfitt að finna lið til að fjárfesta í hinum 23 ára gamla Tammy Abraham. Hann hefur leikið með Bristol City, Swansea City og Aston Villa á láni en hann er ekki í plönum Tuchel og því verður hann seldur í sumar.

Aðrir enskir leikmenn sem reikna má með að verði ekki í vandræðum með að finna sér lið eru Barkley [27 ára, miðjumaður] , Loftus-Cheek [25 ára, miðjumaður] og Conor Gallagher [20 ára, miðjumaður]. Það virðist sem lið í ensku úrvalsdeildinni séu alltaf til í að setja fúlgur fjár í enska leikmenn og vonast þýski þjálfarinn eflaust eftir nokkrum milljónum í kassann þar.

Barkley heillaði hins vegar ekki hjá Aston Villa á síðustu leiktíð og sömu sögu er að segja af Loftus-Cheek hjá Fulham. Gallagher var hins vegar einn af fáum ljósum punktum í fallliði West Bromwich Albion.

Hvernig Chelsea mun ganga að losa sig við hina leikmennina á listanum verður að koma í ljós. Leikmennir sem um ræðir eru eftirfarandi:

  • Michy Batshuayi - sóknarmaður, 27 ára | Belgía
  • Victor Moses - vængmaður, 30 ára | Nígería
  •  Emerson Palmieri - bakvörður, 26 ára | Brasilía
  • Tiemoue Bakayoko - miðjumaður, 26 ára | Frakkland
  • Davide Zappacosta - bakvörður, 28 ára | Ítalía
  • Danny Drinkwater - miðjumaður, 31 árs | England
  • Billy Gilmour - miðjumaður, 19 ára | Skotland
  • Baba Rahman - bakvörður, 26 ára | Gana
  • Kenedy - vængmaður, 25 ára | Brasilía



Fleiri fréttir

Sjá meira


×