Göngugatan er ekki lokuð heldur er hún merkt með skiltum, eins og þekkt er. Heimild til að aka göngugötuna hafa þeir sem sjá um vöruflutninga á tilteknum tímum, íbúar sem þurfa að komast að baklóðum og hreyfihamlaðir.
Göngugatan nær frá Bankastræti að Frakkastíg en allt frá opnun hennar hefur borið á því að gangandi vegfarendur telji bílstjóra virða lokunina að vettugi.
Nú síðast sagði Kristján Hrannar Pálsson organisti frá því á Twitter í gær að litlu hefði mátt muna að keyrt hefði verið á fjögurra ára son hans á götunni, þar sem hann hoppaði í parís.
Hey @logreglan og @reykjavik, það var næstum því keyrt á 4 ára son minn á "göngugötunni" Laugavegi þar sem hann var að hoppa í parís. Ætliði að bíða eftir að eitthvað barn slasist alvarlega eða hysja upp um ykkur núna? Endalaus bílaumferð upp og niður.
— Kristján Hrannar (@KristjanHrannar) June 6, 2021
Elías Þórsson, íbúi við Laugaveg, sem einnig er meðstjórnandi í stjórn Samtaka um bíllausan lífsstíl, segir að útfærsla borgarinnar á göngugötunni sé slæm og merkingum sé verulega ábótavant. Hann vísar til samtals sem hann átti við varðstjóra hjá lögreglu.
„Hann einmitt talaði um að annað hvort þyrfti að útfæra þetta betur eða þá bara sleppa þessu því eins og staðan er í dag er þetta að einhverju leyti verra en þetta var, því nú keyra bílarnir í báðar áttir, því þeir átta sig ekki á akstursstefnunni.“
Börn sem leiki sér á göngugötunni séu í sérstakri hættu.
„Af því foreldrarnir hugsa, þetta er göngugata þannig að það hlýtur að vera að það sé í lagi að börnin séu að leika sér. Þannig að þetta verður verra, sérstaklega því maður hefur séð bíla keyra hérna á þrjátíu, fjörutíu [kílómetra hraða].“
Sjálfur hefur Elías lent í ýmsu.
„Það hefur verið keyrt á mig hérna og það var meira að segja ráðist á mig þegar ég neitaði að færa mig fyrir bílstjóra, hann hoppaði út úr bílnum og reif í mig og henti mér til.“
Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu hefur dregið úr kvörtunum vegna ólöglegs aksturs um göngugötuna síðustu mánuði. Ekki sé fylgst sérstaklega með akstri um hana en almennu eftirliti haldið úti.