Körfubolti

Sungu hátt og kröftuglega fyrir Deane Williams í beinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Deane Williams gat ekki alveg haldið andlitinu þegar stuðningsmannasveitin fór að syngja.
Deane Williams gat ekki alveg haldið andlitinu þegar stuðningsmannasveitin fór að syngja. Skjámynd/S2 Sport

Deane Williams mætti á háborðið í Domino's Körfuboltakvöldi í gærkvöldi eftir þriðja sigur Keflvíkinga á KR en Keflavíkurliðið var þá fyrsta liðið í átta ár til að slá KR út úr úrslitakeppninni.

Deane er einn af lykilmönnunum á bak við gott gengi Keflavíkurliðsins í vetur en liðið hefur nú unnið átján leiki í röð, síðustu tólf í deildarkeppninni og fyrstu sex í úrslitakeppninni.

„Þetta nær langt aftur í tímann eins og þið þekkið betur en ég. Við reynum að hugsa ekki um söguna heldur einbeita okkur að framtíðinni. Þegar horft er á söguna þá er erfitt að komast yfir það hversu oft KR-ingar hafa orðið meistarar. Við reyndum bara að halda einbeitingunni og slíkt skilar alltaf árangri. Við gerðum bara það sem við gátum og það skilaði sér á endanum,“ sagði Deane Williams.

Stuðningsmannasveit Keflvíkinga var enn í salnum og tók þá syngja hátt og kröftuglega fyrir Deane Williams sem gat ekki annað en brosað. Það var heldur ekki auðvelt að heyra spurningarnar í hávaðanum.

Kjartan Atli spurði Deane hvernig væri að spila með stuðningsmenn Keflavíkur í stúkunni.

„Það er frábært að spila fyrir þessa áhorfendur og þá sérstaklega eftir að hafa spila í svo langan tíma án áhorfenda. Það er gott að fá þessa aukaorku frá þeim til að ýta okkur áfram inn á vellinum. Það skiptir okkur miklu máli að hafa þá og þeir eiga hrós skilið. Þeir mæta á alla leiki og við erum að spila fyrir þá,“ sagði Deane.

Hér fyrir neðan má horfa á viðtalið við Deane Williams og heyra það þegar stuðningsmenn Keflavíkur sungu fyrir kappann í beinni.

Klippa: Dominos Körfuboltakvöld: Deane Williams á háborðinu



Fleiri fréttir

Sjá meira


×