Auður gaf út yfirlýsingu í gær vegna ásakana á hendur honum um að hann hafi gerst sekur um kynferðisofbeldi. Hann sagði í yfirlýsingunni að hann hafi farið yfir mörk konu og að hann muni ekki sinna verkefnum á næstu vikum og mánuðum á meðan hann setur áframhaldandi sjálfsvinnu í forgang.
UN Women staðfesti það í samtali við fréttastofu í gær að samtökin hafi fjarlægt allt markaðsefni með Auði í kjölfar ásakananna. Þá var greint frá því í gær að Þjóðleikhúsið hafi ásakanirnar á hendur Auði til skoðunar.
Til stóð að Auður myndi sjá um tónlistina í leiksýningunni Rómeó og Júlíu, sem verður frumsýnd í Þjóðleikhúsinu í september, ásamt tónlistarkonunni Sölku Valsdóttur. Enn er óljóst hvað verður um tónlistina í verkinu og verður ákvörðun um það líklega ekki tekin fyrr en í haust.
Fyrir þá sem hafa ekki séð það þá verður Auður ekki með á tónleikum mínum 16 júní
— Bubbi Morthens (@BubbiMorthens) June 7, 2021
Þá stóð til að Auður myndi koma fram á tónleikum Bubba Morthens í Hörpu 16. júní næstkomandi. Hann mun ekki koma fram á þeim, sem Bubbi staðfesti á Twitter í gær.