Sólmyrkvinn í dag er svonefndur deildarmyrkvi en þá skyggir tunglið á hluta skífu sólar frá jörðu séð. Frá Reykjavík skyggir tunglið á 69% skífu sólarinnar en stærstur verður myrkvinn á Ísafirði, 73%. Myrkvinn er mun minni en sá sem gekk yfir landið 20. mars árið 2015 en þá skyggði tunglið á 97% af skífu sólarinnar.
Tunglið byrjar að ganga fyrir sólina klukkan 9:06 í Reykjavík og nær myrkvinn hámarki sínu klukkan 10:17. Myrkvanum lýkur klukkan 11:33.
Tvísýnt er um hvort að myrkvinn verði sjáanlegur á Íslandi. Í höfuðborginni er skýjað og skúrir og spáð er rigningu víða um landi. Engu að síður er þó mögulegt að það rofi til nógu lengi einhvers staðar til að hægt verði að sjá myrkvann á einhverju stigi hans.
Myrkvinn verður þó ekki aðeins sjáanlegur frá Íslandi. Annars staðar á norðurhveli sést svonefndur hringmyrkvi en hann verður þegar tunglið er aðeins of langt til þess að fylla út í skífu sólar þannig að ljóshringur sést í kringum tunglið þegar það gengur fyrir sólina.
Slíkan myrkva má sjá frá Kanada, Grænlandi, norðurpólnum og norðaustanverðu Rússlandi. Hægt er að fylgjast með hringmyrkva í beinu streymi vefsíðunnar Time and Date hér fyrir neðan. Hér er svo samantekt Forbes á fleiri streymum frá myrkvanum.