Alfreð starfar í fullu starfi sem bílamálari en er með vinsæla Instagram síðu og eigin grillsjónvarpsþætti á Stöð 2, BBQ kóngurinn en allar uppskriftir þáttanna birtast hér á Vísi. Hann var svo núna að gefa út grillbók með fróðleik, góðum ráðum og svo auðvitað uppskriftum.
„Þetta var rosalega erfitt, ég er lélegur að skrifa texta,“ viðurkennir Alfreð um bókarskrifin.
Sindri Sindrason hitti BBQ kónginn í þættinum Ísland í dag. Hann bað grillmeistarann að gefa áhorfendum hugmyndir að grillmat sem taki ekki of langan tíma að elda og kosti heldur ekki mjög mikið.
„Þá förum við í þessa ódýru vöðva,“ útskýrir Alfreð. Hann segir að þeir séu líka oft mjög bragðmiklir.
„Ef við viljum sem stystan tíma þá veljum við sem þynnstu steikina.“
Spurður um besta grillráðið svaraði Alfreð að kjöthitamælir væri besta ráðið.
Í þættinum eldaði hann tvo rétti, Picanha steik og skirt steik, en báðar uppskriftirnar má finna í nýrri bók hans. Grillið sem hann notaði í þetta skiptið er staðsett á útivistasvæðinu Víðistaðatúni í Hafnarfirði. Aðferðina má sjá í innlegginu í spilaranum hér fyrir neðan.