Viðskipti innlent

Lands­bankinn varar við fölskum smá­skila­boðum

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Svikahrappar reyna að láta líta út fyrir að skeytin komi frá Landsbankanum. Það er ekki rétt.
Svikahrappar reyna að láta líta út fyrir að skeytin komi frá Landsbankanum. Það er ekki rétt. Vísir/Vilhelm

Landsbankinn varar við fölskum SMS-skilaboðum sem send hafa verið á fólk í nafni bankans.

Í tilkynningu frá bankanum kemur fram að í skilaboðunum, sem eru á ensku, séu viðtakendur beðnir um að staðfesta farsímanúmer sín með því að smella á hlekk sem í kjölfarið vísi fólki inn á falska vefsíðu sem líkist innskráningarsíðu í netbanka Landsbankans.

Fólk er beðið um að smella ekki á umræddan hlekk, enda sé skeytið sent af svikahröppum en látið líta út fyrir að vera frá bankanum.

„Landsbankinn minnir á að bankinn sendir aldrei SMS-skeyti eða tölvupóst þar sem viðtakendur eru beðnir um að fara inn í netbankann sinn og skrá sig inn. Um leið er minnt á fræðslugrein á vef bankans um hvernig hægt er að þekkja muninn á fölskum og raunverulegum skilaboðum.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×