Enski boltinn

Millwall til­búið að hlusta á til­boð í Jón Daða

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Jón Daði í leik með Millwall á síðustu leiktíð.
Jón Daði í leik með Millwall á síðustu leiktíð. Millwall

Svo virðist sem íslenski landsliðsframherjinn Jón Daði Böðvarsson gæti verið á förum frá enska B-deildarliðinu Millwall.

Samkvæmt vefmiðlinum South London News er enska félagið tilbúið að hlusta á tilboð í þennan 29 ára gamla framherja. Félagið ætlar að sækja tvo framherja í sumar og ku vera tilbúið að láta Jón Daða fara til að búa til pláss.

Jón Daði er að fara inn í síðasta árið á samningi sínum við liðið eftir að hafa gengið til liðs við Millwall árið 2019. Hann byrjaði aðeins 13 deildarleiki á nýafstaðinni leiktíð en kom hins vegar 25 sinnum inn af varamannabekknum. 

Oftar en ekki var það þó sem kantmaður sem útskýrir mögulega af hverju hann skoraði aðeins eitt mark.

Jón Daði hefur spilað á Englandi síðan árið 2016 þegar hann samdi við Wolverhampton Wanderers. Þaðan fór hann til Reading og svo Millwall. Nú virðist sem hann sé á faraldsfæti á nýjan leik.

Jón Daði hefur spilað 60 A-landsleiki fyrir Ísland og skorað í þeim þrjú mörk. Þar á meðal gegn Austurríki á EM í Frakklandi 2016.


Championship-deildin er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. EFL Championship er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×