Hafist var handa í vikunni við að reisa fjögurra metra háan leiðigarð syðst í Geldingadölum til að koma í veg fyrir að hraun renni niður í Nátthagakrika. Almannavarnir funduðu um stöðu mála, þar sem til skoðunar var að setja upp frekari varnarvirki. Fallið var frá þeim fyrirætlunum, segir Rögnvaldur Ólafsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá almannavörnum.
„Eftir þá skoðun var ákveðið að aðhafast ekkert,” segir hann. Hraunið mun þar af leiðandi flæða yfir Suðurstrandarveg, sem talið er að muni gerast á næstu einni til þremur vikum.
„Við vitum ekki 100 prósent hvaða áhrif þetta hefur á ljósleiðarann sem er þarna á svæðinu. Það er búið að færa hann aðeins til og setja hann dýpra, en hvort það dugi til á eftir að koma í ljós.”
Fleiri innviðir eru undir, til dæmis Ísólfsskáli, en talið er nær fullvíst að hann fari einni gundir hraun. „Við erum að horfa fram á að þessi atburður geti staðið í einhver ár og jafnvel áratugi og þá þurfum við bara að endurmeta stöðuna. Hingað til höfum við verið að draga línu í sandinn og svo er farið í þá línu og þá er dregin ný lína, en núna erum við bara að skoða þetta í stærra samhengi og hvaða mannvirki og innviðir á svæðinu skipta stærra máli og einbeita okkur að þeim í staðinn.”
Rögnvaldur segir að horft verði á Grindavíkurbæ, Grindavíkurveg, Reykjanesbraut og Svartsengi. „Þetta eru töluvert stórir hagsmunir sem við erum að horfa á.”
Þá tekur hann fram að hraunið sé nú meira þunnfljótandi en í upphafi og ferðist þar af leiðandi hraðar. „Við erum að undirbúa okkur undir það versta í sjálfu sér. Það er ólíklegt að hraunið fari svona langt, en það er hægt og getur það fræðilega og vísindalega séð. Þannig að við verðum að undirbúa okkur undir þann möguleika.”