Erlent

Örlög Löfven ráðast innan skamms

Atli Ísleifsson skrifar
Umræður standa nú yfir í aðdraganda atkvæðagreiðslunnar um vantrauststillöguna.
Umræður standa nú yfir í aðdraganda atkvæðagreiðslunnar um vantrauststillöguna. epa/Mika Schmidt

Sænska þingið greiðir innan skamms atkvæði um vantrauststillögu gegn forsætisráðherranum Stefan Löfven.

Fréttaskýrendur segja miklar líkur á að tillagan verði samþykkt sem gæti þá annað hvort leitt til tilrauna um nýja stjórnarmyndun eða þá að boðað verði til aukakosninga í landinu. Kemur þing saman klukkan átta að íslenskum tíma til að ræða og greiða atkvæði um tillöguna. 

Svíþjóðardemókratar leggja fram vantrauststillöguna, en auk þeirra hafa þingflokkar Moderaterna, Kristilegra demókrata og Vinstriflokksins sagst styðja tillöguna. 

Ríkisstjórnin hefur þurft að treysta á stuðning Vinstriflokksins sem hefur nú snúist gegn stjórn forsætisráðherrans vegna ákvörðun ríkisstjórnar hans um að aflétta takmarkanir á hámarksleiguverð í nýju húsnæði. 

Ekki hefur verið boðað til aukakosninga í Svíþjóð frá árinu 1958, en lög landsins kveða á um að jafnvel þó að haldnar séu aukakosningar þá hafi það ekki áhrif á að kosningar fari fram á fjögurra ára fresti. 

Kosningar munu því fara fram í september á næsta ári líkt og til stóð, burtséð frá því hvort að boða þurfi til aukakosninga nú. 

Fari svo að tillagan verði samþykkt verður Löfven fyrsti forsætisráðherra Svíþjóðar til að verða bolað úr embætti með þessum hætti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×