Umfjöllun og viðtöl: Valur - Þór/KA 1-1 | Valur missteig sig á heimavelli

Sverrir Mar Smárason skrifar
Vísir/Elín Björg

Valur og Þór/KA skildu jöfn á Origo-vellinum í Pepsi-Max deild kvenna í kvöld, 1-1. Valskonur höfðu yfirhöndina mest allan leikinn en Þór/KA stúlkur stóðu vaktina vel í vörninni.

Elín Metta Jensen kom Valsstúlkum yfir þegar hún skoraði sitt fjórða mark í deildinni í sumar á 19. Mínútu leiksins. Slæm sending barst þá til baka á Huldu Björgu í vörn Þórs/KA, Elín Metta stal boltanum og kláraði vel fram hjá Hörpu, markmanni Þórs/KA, 1-0.

Fyrri hálfleikurinn var heilt yfir mjög tíðindalítill og fór að mestu fram á miðjum vellinum. Valur reyndu að spila sínar uppspilsleiðir en illa gekk að finna tíma og pláss innan um marga varnarmenn Þórs/KA.

Sóknarmenn Akureyrarliðsins vöknuðu rétt fyrir lok fyrri hálfleiks, unnu boltann í tvígang á miðjum vellinum en nýttu skyndisóknir ekki nægilega vel. Þær komu svo grimmar út í seinni hálfleik og fengu vítaspyrnu strax á 46. Mínútu þegar María Catharina reyndi skot sem fór í hönd Mist Edvardsdóttur. Margrét Árnadóttir fór á punktinn, sendi Söndru í öfugt horn og skoraði örugglega.

Það sem eftir lifði leiks reyndu Valsstúlkur áfram að spila boltanum upp miðjan völlinn inn í þéttan pakka Þórs/KA og illa gekk að fá almennileg færi. Arna Sif varði tvö skot, eitt frá Elínu Mettu og annað frá Ásdísi Karen, með góðum tæklingum en fleiri voru færi Valsara ekki. Þór/KA fengu hins vegar talsvert mörg tækifæri á að sækja upp völlinn í yfirtölu en náðu bara alls ekki að stilla sig saman og taka góðar ákvarðanir. Lokatölur því 1-1.

Af hverju var jafntefli?

Hvorugt liðið var nægilega hungrað í að vinna þennan leik í kvöld. Færin voru af skornum skammti og nýtingin á góðum stöðum var léleg.

Hverjar stóðu upp úr?

Arna Sif Ásgrímsdóttir, fyrirliði Þórs/KA, stóð upp úr í þessum leik. Hún stýrði sínu liði frábærlega þegar liðið varðist oft í langan tíma í einu. Sömuleiðis stoppaði hún tvö bestu færi Vals á síðustu stundu með góðum tæklingum.

Hinum megin á vellinum var það Mist Edvardsdóttir sem stóð upp úr. Hún var traust til baka í skyndisóknum Akureyrarliðsins. Óheppin að fá á sig vítið og gat lítið í því gert.

Hvað gekk illa?

Sóknarleikur gekk illa í dag. Valskonur reyndu það sama aftur og aftur en sóknarmenn liðsins fengu hvorki tíma né pláss. Þór/KA fleygðu hverri skyndisókninni á eftir annarri og hefðu átt að gera mun betur.

Hvað gerist næst?

Valur spilar við ÍBV í Mjólkurbikar kvenna á fimmtudag kl. 18:00 á Hásteinsvelli. Þór/KA hins vegar fá viku frí og spila næst deildarleik við Fylki þriðjudaginn 29.júní.

Arna Sif: Getum farið sáttar heim með 1 stig

„Mér líður bara nokkuð vel. Ég held við getum farið sáttar heim með 1 stig, mér fannst við samt eiga tækifæri á að taka öll 3 svo maður gæti kannski alveg verið fúll en að koma hingað og taka 1 stig á móti sterku Valsliði er bara gott fyrir okkur“ sagði Arna Sif, fyrirliði Þórs/KA strax eftir leik.

„Okkur skorti aðeins hugrekki kannski. Við höfum fengið skelli hérna áður en svo komum við og erum að gera vel, erum góðar varnarlega, þéttar og flottar, svo fáum við boltann og það er eins og við höfum búist við því að þær væru grimmari og kæmu í pressu. Oft höfðum við meiri tíma en við héldum“ sagði Arna svo þegar hún var spurð út í skyndisóknir síns liðs.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira