Í tilkynningu frá Aztiq segir að fjármagnið sé notað til að fjárfesta frekar í Alvogen í Bandaríkjunum, en það var bandaríski fjárfestingabankinn Morgan Stanley sem hafði umsjón með fjármögnuninni þar sem alþjóðlegir fagfjárfestar tóku þátt. Forstjóri Alvogen, Róbert Wessman, er stærsti einstaki hluthafi fjárfestingafélagsins Aztiq.
„Árið 2017 útvíkkaði Alvogen í Bandaríkjunum starfsemi sína og stofnaði Almatica Pharma. Almatica leggur höfuðáherslu á að þróa, framleiða og markaðssetja ný tauga-og geðlyf með verkun á miðtaugakerfið. Lyf Almatica mæta þörfum sjúklinga sem núverandi lyf á markaði gera ekki. Markmiðið er að auka aðgengi sjúklinga að nýjum lyfjum sem bæta heilsu þeirra og líðan.
Fjármagnið sem nú kom inn nýtti Aztiq í að kaupa 17% hlut í Alvogen í Bandaríkjunum á gengi sem jafngildir því að eiginfjárvirði fyrirtækisins fyrir aukninguna hafi verið 43 milljarðar króna (350 milljónir Bandaríkjadala).
Alvogen í Bandaríkjunum hefur alfarið verið í eigu Alvogen Lux Holdings, en eftir kaup Aztiq á Alvogen í Bandaríkjunum heldur Aztiq Pharma Partners samanlagt, beint eða óbeint, á um það bil 40 prósenta hlut í fyrirtækinu.“
Langtímafjárfestir
Aztiq Pharma Partners er langtímafjárfestir sem leggur áherslu á fjárfestingar í lyfjaiðnaði, en stærstu eignir Aztiq eru í lyfjafyrirtækjunum Alvogen, Alvotech og Lotus. Fjárfestingahópurinn samanstendur af einstaklingum og alþjóðlegum fjárfestingasjóðum, en stærsti einstaki hluthafi félagsins er Róbert Wessman.
„Alvogen er alþjóðlegt lyfjafyrirtæki og leggur áherslu á þróun, framleiðslu og sölu á samheitalyfjum, vörumerkjum og lausasölulyfjum um allan heim. Starfssemi fyrirtækisins er í um 20 löndum og hjá því starfa um 1.700 manns. Alvogen rekur fjórar framleiðslu- og þróunarmiðstöðvar í Bandaríkjunum, Kóreu og Taívan. Forstjóri Alvogen er Róbert Wessman,“ segir í tilkynningunni.