Íslenski boltinn

Ísak Bergmann úthúðaði dómaranum eftir leik Víkings og ÍA: Trúðalestin enn og aftur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ísak Bergmann Jóhannesson í landsleik á móti Liechtenstein í undankeppni HM 2022.
Ísak Bergmann Jóhannesson í landsleik á móti Liechtenstein í undankeppni HM 2022. Getty/DeFodi

Hörð viðbrögð eins efnilegasta knattspyrnumanns landsins á samfélagsmiðlum eru dæmi um það hversu ósáttir Skagamenn voru með vítaspyrnuna sem Víkingar fengu í uppbótartíma í gær.

Íslenski landsliðsmaðurinn og vonarstjarnan Ísak Bergmann Jóhannesson lét óánægju sína með dómgæsluna, í leik Víkings og ÍA í Pepsi Max deild karla, í ljós á samfélagsmiðlum eftir leikinn í gær.

Skjáskot/Instagram

Ísak kallaði dómara leiksins trúð og athyglissjúkan og velti því upp hvenær hann yrði látinn hætta að dæma leiki í efstu deild.

Nikolaj Hansen skoraði eina mark leiksins á þriðju mínútu í uppbótartíma úr vítaspyrnu sem Skagamenn voru mjög ósáttir með.

Ísak Bergmann er einn efnilegasti knattspyrnumaður landsins og leikur með Norrköping í sænsku úrvalsdeildinni. Hann er líka uppalinn Skagamaður og sonur Jóhannesar Karls Guðjónssonar, þjálfara ÍA liðsins.

Hér fyrir neðan má sjá þennan umdeilda dóm.

Skjáskot/Instagram

Ísak skrifaði skoðun sína á Helga Mikael Jónssyni dómara leiksins yfir sjónvarpsmyndir frá leiknum og setti inn sem sögur á Instagram reikningi sínum.

„Trúðalestin enn og aftur. Hvenær á þessi gæi að hætta að dæma í efstu deild,“ skrifaði Ísak og hélt svo áfram:

„Hann elskar athyglina. Það eru ekki allir mættir að horfa á þig Helgi Mikael,“ skrifaði Ísak. Hann var ekki hættur og endaði á smá kaldhæðni.

„Þið eruð flottir. Rosa flottir. Til hamingju, núna fáið þið athygli. Það sem þið vilduð,“ skrifaði Ísak.

Hér til hliðar og fyrir neðan má sjá færslur Ísaks.

Skjáskot/Instagram



Fleiri fréttir

Sjá meira


×