Umfjöllun og viðtöl: Þróttur - Tindastóll 2-0 | Þróttur upp í þriðja sætið

Dagur Lárusson skrifar
Þróttur og Tindastóll gerðu 1-1 jafntefli þegar liðin mættust á Sauðárkróki í byrjun sumars.
Þróttur og Tindastóll gerðu 1-1 jafntefli þegar liðin mættust á Sauðárkróki í byrjun sumars. vísir/hulda margrét

Þróttur bar sigurorð af Tindastól í Pepsi Max deild kvenna í kvöld en lokatölur voru 2-0 og Þróttur því komið upp 3.sæti deildarinnar.

Það var ljóst strax frá 1.mínútu að liðsmenn Þróttar mættu ákveðnari til leiks. Fyrsta alvöru færi leiksins leit dagsins ljós á 5.mínútu en þá lék Katherine á tvo varnarmenn Tindastól og lét vaða á markið en Amber varði vel.

Fyrsta mark leiksins kom síðan á 29.mínútu en þá var Katherine aftur á ferðinni. Þá fékk hún boltann innan teigs og lék listir sínar í áður en hún reyndi að fara framhjá Bryndísi Rós sem braut á henni og því réttilega dæmd vítaspyrna. Katherine steig sjálf á punktinn og skoraði og kom sínu liði yfir. Staðan var 1-0 í hálfleik.

Liðsmenn Þróttar voru síðan ekkert að tvínóna við hlutina í seinni hálfleiknum því strax á 47.mínútu dró til tíðinda. Þá kom frábær sending frá vörn Þróttar, inn fyrir vörn Tindastóls þar sem Linda Líf náði boltanum, gaf frábæra fyrirgjöf inn á teig þar sem Ólöf Sigríður lúrði og stýrði boltanum framhjá Amber í markinu og kom Þrótti í 2-0.

Eftir þetta mark var lítið af opnum marktækifærum og það virtist vera sem svo eins og gestirnir væru búnir að játa sig sigraða heldur snemma. Það komu ekki fleiri mörk í leikinn og lokatölur því 2-0 fyrir Þrótti. Með sigrinum kemst Þróttur í 3.sæti deildarinnar.

Af hverju vann Þróttur?

Stelpurnar í Þrótti einfaldlega mættu ákveðnari til leiks og það var augljóst strax frá fyrstu mínútu. Þær voru á undan í alla bolta og voru tilbúnar í alvöru baráttu.

Hverjir stóðu upp úr?

Katherine var algjörlega óaðfinnanleg hjá Þrótti. Það var hún sem fiskaði og skoraði úr vítinu og svo var það hún sem skapaði nánast öll önnur færi hjá Þrótti í leiknum. Linda Líf og Ólöf spiluðu einnig vel í kvöld.

Hvað fór illa?

Það einfaldlega vantaði upp á baráttuna hjá Tindastól í kvöld og var Guðni, þjálfari Tindastóls, sammála því í viðtali eftir leik. Eins vel og stelpurnar í Tindastól léku í síðasta leik gegn Stjörnunni, þá var það ekki til staðar í kvöld.

Hvað gerist næst?

Þróttur á tvo stóra leiki framundan. Fyrst tekur liðið á móti FH í undanúrslitum Mjólkurbikarsins á föstudaginn áður en liðið fer síðan í heimsókn til toppliðs Vals. Næsti leikur Tindastóls er síðan gegn Fylki þann 20.júlí.

Nik: Vorum ekki upp á okkar besta en gerðum nóg

Nik ChamberlainMynd/Þróttur

,,Við vorum kannski ekki upp á okkar besta í kvöld, en ég er ánægður með sigurinn,” byrjaði Nik Chamberlain, þjálfari Þróttar, á að segja.

,,Þetta var ekki okkar besta spilamennska en við gerðum nóg. Við vorum með völdin á vellinum nánast allan leikinn og þau fáu færi sem þær fengu komu út frá klaufalegum mistökum hjá okkur. En heilt yfir þá var þetta heldur þægilegt fyrir okkur.”

Nik vildi meina að liðið hans hafi verið í öðrum og þriðja gír allan leikinn.

,,Mér fannst við varla fara úr öðrum og þriðja gír í leiknum. Spilið var lélegt oft á tíðum og kannski eitthvað hugsanaleysi sem olli því. Liðsmenn Tindastóls auðvitað gerðu okkur erfitt fyrir á tímum í leiknum.”

Með sigrinum fór Þróttur upp í 3.sæti deildarinnar, fimm stigum á eftir toppliði Vals. Nik vill þó meina að liðið hans sé ekki að hugsa til þess að hrifsa toppsætið.

,,Það er ekki í hausnum á okkur eins og er allaveganna. Við erum ennþá með okkar markmið sem er einfaldlega að enda í efri hlutanum í deildinni og það hefur ekkert breyst. Auðvitað gæti það breyst ef við höldum áfram að vinna leiki en fyrir okkur er það alltaf bara næsti leikur og næsti leikur er stór leikur í bikarnum á föstudaginn,” endaði Nik á því að segja.

Guðni: Hefðum getað verið yfir í hálfleik með smá heppni

Óskar Smári Haraldsson og Guðni Þór Einarsson eru þjálfarar Tindastóls.vísir/Sigurjón

,,Þetta er auðvitað súrt og svekkjandi. Við komum inn í leikinn fullar af sjálfstrausti og ætluðum okkur þrjú stig, en það gekk því miður ekki upp gegn öflugu liði Þróttar,” byrjaði Guðni Þór Einarsson, þjálfari Tindastóls, á að segja.

Guðni var þó ánægður með spilamennskuna í fyrri hálfleiknum.

,,Heilt yfir fannst mér frammistaðan vera fín. Mér fannst fyrri hálfleikurinn góður af okkar hálfu og mér fannst við halda þeim vel niðri sóknarlega séð og vorum að koma okkur í góð marktækifæri og með smá heppni hefðum við getað verið yfir í hálfleik.”

Tindastóll hafði átt tvo taplausa leiki áður en kom að þessum leik og síðasti leikur liðsins var útisigur gegn Stjörnunni. Guðni vildi meina að liðið hans hafi spilað næstum jafn vel í þessum leik og í þeim leikjum.

,,Í fyrri hálfleiknum fannst mér við halda uppteknum hætti frá þeim leikjum ef ég á að segja alveg eins og er. Við náðum góðum spilaköflum og orkustigið var gott. Hins vegar mætum við ekki með sömu orku í seinni hálfleikinn og það var okkur að falli í dag því miður,” endaði Guðni á að segja.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira