Enski boltinn

Ó­vissa með fram­tíð Lingard

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Ekki er víst hvar Jesse Lingard spilar á næstu leiktíð.
Ekki er víst hvar Jesse Lingard spilar á næstu leiktíð. Plumb Images/Getty Images

Knattspyrnumaðurinn Jesse Lingard stóð sig frábærlega eftir að hann var lánaður til West Ham United í janúar síðastliðnum. Hann er í dag leikmaður Manchester United en forráðamenn liðsins virðast ekki vita hvað þeir eigi að gera við leikmanninn.

Hinn 28 ára gamli Lingard fór á láni til West Ham á síðustu leiktíð og stóð sig með prýði. Skoraði hann níu mörk og lagði upp önnur fimm í aðeins 16 leikjum. Hann var nálægt því að vera valinn ílandsliðshóp Englands fyrir EM en Gareth Southgate – þjálfari liðsins – ákvað á endanum að velja frekar fjóra hægri bakverði.

Samkvæmt heimildum The Athletic hefur West Ham mikinn áhuga á að festa kaup á leikmanninum en er ekki tilbúið að borga uppsett verð. Lingard á aðeins tólf mánuði eftir af samningi sínum á Old Trafford en samt sem áður vill Man United 30 milljónir punda.

Mikil óvissa ríkir í herbúðum Man Utd varðandi framtíð Lingard. Talað er um að gefa leikmanninum nýjan samning svo hægt sé að selja hann á hærra verði næsta sumar eða selja strax þar sem liðið þarf á fjármunum að halda.

Lingard sjálfur hefur sagt að aðalatriði hans sé að spila reglulega, eitthvað sem hann hefur ekki gert undir stjórn Ole Gunnar Solskjær.

Manchester United hefur nú þegar staðfest kaup á Jadon Sancho fyrir rúmlega 70 milljónir punda en hann á þó enn eftir að gangast undir læknisskoðun. Þá er Raphaël Varane, miðvörður Real Madrid og franska landsliðsins, orðaður við rauða hluta Manchester-borgar.

Það er því ljóst að félagið þarf á fjármunum að halda og það strax.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×